136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

niðurstöður PISA-kannana.

[10:47]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Hér minntist hæstv. menntamálaráðherra á lesskilninginn. Okkur hefur hrakað í lesskilningi. Við náum líka slökum árangri í stærðfræði og náttúrufræði og það er verulegt áhyggjuefni. Ég tel að við Íslendingar höfum ekki lagt nógu mikla áherslu á menntakerfið síðustu ár, því miður. Við höfum svolítið gleymt því að fara heildstætt yfir menntamálin og koma með nógu góðar tillögur til úrbóta. Þetta er stórt verkefni og ég er ekki að saka neinn um þessa stöðu en það er algerlega ljóst að við búum ekki við afar öflugt menntakerfi hér, árangurinn sýnir að það er ekki nógu gott. Þetta er stórpólitískt verkefni sem allir flokkar þurfa að taka á á næsta kjörtímabili.

Við þurfum að ná okkur upp úr efnahagslægðinni og það verður gert m.a. með því að efla menntakerfið þannig að kynslóðirnar sem koma geti hlúð betur að (Forseti hringir.) Íslandi á allan hátt.