136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

niðurstöður PISA-kannana.

[10:48]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni. Á fundi um menntamál sem haldinn var í Háskólabíói í gær með fulltrúum allra stjórnmálaflokka var bent á að þegar saman eru teknar stefnur flokkanna fyrir þessar kosningar eins og þær voru birtar í Morgunblaðinu núna nýlega var vart minnst á menntamál nema á einum stað var talað um aukna útvistun í kerfinu sem er ekki hægt að kalla sérstaka menntastefnu heldur fremur einkarekstrarstefnu. Það vekur okkur til umhugsunar um að það er vissulega þörf á því ef flokkarnir horfa á þetta út frá pólitíkinni. Við erum í öllum flokkum búin að ræða það hvernig menntakerfið eigi að vera okkar leið út úr kreppunni og ég er sammála því. En þá þurfum við líka að vita hvert við ætlum að fara og við þurfum auðvitað að horfa á grunninn, á læsið, sem er náttúrlega undirstaða alls, stærðfræðina og annað. Það skiptir máli að við horfum á menntun kennara í því samhengi og að við stuðlum að þeirri fjölbreytni sem ég nefndi áðan af því að við erum jafnólík og við erum mörg og það skiptir máli að nemendur fái eitthvað við sitt hæfi í kerfinu.