136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

byggðakvóti.

[10:49]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Fl):

Herra forseti. Í gær var stofnað nýtt leikhús í Reykjavík niðri í Kaffivagni þar sem hæstv. sjávarútvegsráðherra var með sýningu. Sjálfsagt er það gott framlag í nýsköpun en þar var tilkynnt að fara ætti að afnema byggðakvóta á Íslandi. Mig langar til að benda hæstv. ráðherra á að byggðakvótinn var settur á til að bregðast við vanda sem upp kæmi í byggðum þegar byggðarlög misstu kvóta. Og nú á að taka þennan kvóta í burtu og dreifa honum yfir allt landið til að skakarinn geti notað hann. (Gripið fram í: Er það ekki gott?) Það er mjög slæmt þegar kvótinn er tekinn af byggðunum með þessum hætti sem var (Gripið fram í.) neyðarbrauð byggðanna og ástæðan fyrir því að það á að afnema hann er að reglurnar eru svo lélegar. Ég segi, hæstv. forseti: Ef reglurnar um úthlutunina eru lélegar er aðeins eitt að gera, það er að breyta reglunum og gæta þess að byggðir sem verða fyrir áföllum vegna aflabrests eða aflaskerðingar fái kvóta, til þess er þetta. Þetta útspil kom eins og búið væri að gefa frjálsar handfæraveiðar á Íslandi og meira að segja trillukarlar voru ánægðir og héldu að það ætti að fara að róa í maí. Svo þegar betur er að gáð kemur í ljós að ráðherrann segir nánast: Þegar ég er orðinn ráðherra í næstu ríkisstjórn verður þetta gert — með fullri virðingu, hæstv. sjávarútvegsráðherra. (Gripið fram í.) Ég hvet til meiri auðmýktar þó svo að skoðanakannanir sýni mikið fylgi.