136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stefna VG í efnahagsmálum.

[10:56]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Það er óhætt að segja að heimilin og fjölskyldurnar í landinu óttist um sinn hag um þessar mundir sem eðlilegt er þegar aðstæður í efnahagslífinu eru eins og þær eru núna. En yfirlýsingar forustumanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um að þeir áformi að lækka laun opinberra starfsmanna og hækka skattana á heimilin í landinu hafa ekki verið til þess fallin að auka bjartsýni fólksins í landinu, því miður.

Ég hef óskað eftir upplýsingum um það hvernig Vinstri grænir hyggist útfæra launalækkunar- og skattahækkunarstefnu sína sem ég hef kallað baneitraðan kokteil og aðför að heimilunum í landinu, einkum barnafjölskyldunum. (Gripið fram í: ... í síðustu ríkisstjórn.) Í gær upplýsti hæstv. fjármálaráðherra, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Steingrímur J. Sigfússon, því yfir að laun undir 250–300 þús. kr. yrðu ekki lækkuð. Ég skil þá yfirlýsingu þannig að opinberir starfsmenn sem eru með laun yfir 250–300 þús. kr. megi búast við launalækkunum. Það er mjög athyglisvert í ljósi þess að samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér eru meðalheildartekjur í landinu 380 þús. kr. á mánuði. Vinstri grænir ætla sem sagt, komist þeir til valda, að lækka laun fólks sem er með minna en meðalheildartekjur í laun á mánuði sem er sérstaklega athyglisvert. Þess vegna langar mig til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra tveggja spurninga:

Hvað mega opinberir starfsmenn búa sig undir miklar launalækkanir (Forseti hringir.) eftir kosningar og hversu miklar verða þær skattahækkanir sem Vinstri grænir hyggjast beita sér fyrir?