136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stefna VG í efnahagsmálum.

[10:59]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það er kærkomið tækifæri að geta brugðist við þessum ævintýralegu útúrsnúningum frá Sjálfstæðisflokknum sem eru aðalinnlegg þeirra í kosningabaráttuna núna. Sjálfstæðisflokkurinn hefur enga stefnu, engar tillögur, ekki neitt, byggir allan sinn málflutning núna á málþófi og útúrsnúningum á afstöðu annarra, allan. Það stendur ekki til að hrófla í einu eða neinu við föstum umsömdum kjörum, hvorki opinberra starfsmanna né annarra launamanna, það er alveg á hreinu. Við ætlum að verja þau en við ætlum að verja líka störfin þannig að það komi ekki til fjöldauppsagna opinberra starfsmanna sem verður niðurstaðan af því ef Sjálfstæðisflokkurinn kæmist nálægt völdunum. Það er algerlega á hreinu. Þess vegna er það betra að jafna vinnu og jafna kjör t.d. þannig að hægt sé að verja föst umsamin og óskert kjör, þá drægju menn frekar úr yfirvinnu, óunninni yfirvinnu, aukavöktum og öðru slíku og jafni þannig kjörin. En það er líka hægt að gera það þannig að þó að það séu kjör ofan á umsamin laun séu sett mörk fyrir því og það var í það sem ég vísaði á Akureyri í gær.

Hvað er Sjálfstæðisflokkurinn að gera þar sem hann fer með völdin? Hann er með flatar launalækkanir, flata kröfu á lækkun launa í Akureyrarbæ og Reykjavíkurborg niður úr öllum launastiganum. Þvílíkur tvískinnungur að bera það á aðra sem þeir eru sjálfir að gera. Sjálfstæðisflokkurinn hækkaði skatta um 11,5 milljarða fyrir áramót. Sjálfstæðisflokkurinn hækkað útsvar á Akureyri og er að lækka þar laun. Það er veruleikinn. Farið þið nú að koma út úr glerhúsunum, góðir sjálfstæðismenn.