136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stefna VG í efnahagsmálum.

[11:00]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Það er a.m.k. alveg ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn ætlar ekki að standa að því að hækka skattana á heimilin í landinu, nógu erfitt eiga þau fyrir. (Gripið fram í.) Það ætla hins vegar Vinstri grænir að gera og það þýðir ekkert fyrir formann Vinstri grænna að koma hérna upp og saka okkur sjálfstæðismenn um útúrsnúninga og hlaupa undan sínum eigin orðum. Forustumenn Vinstri grænna hafa lýst því yfir, þar á meðal varaformaður Vinstri grænna, að það eigi að lækka laun opinberra starfsmanna í landinu og það er kosningastefna Vinstri grænna að hækka skatta á heimilin í landinu. (Heilbrrh.: Útúrsnúningar.) Þetta er tvöfaldur löðrungur sem Vinstri grænir ætla að veita heimilunum í landinu og úr því að hæstv. heilbrigðisráðherra Ögmundur Jónasson kallar hér fram í furða ég mig á því að sá maður, sem einnig er formaður BSRB, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, þegi þunnu hljóði og sætti sig við að hans eigin flokkur ætli að lækka laun sinna eigin (Forseti hringir.) skjólstæðinga. Öðruvísi mér áður brá, ég bjóst við öðru frá formanni (Forseti hringir.) BSRB en þessum viðbrögðum. (ÁÞS: Reyndu að segja satt.) Ég segi satt.