136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

frestun á fundum Alþingis.

473. mál
[11:21]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Senn líður að lokum þessa þings og verður gengið til kosninga. Vafalaust hafa margir borið í brjósti miklar vonir um að sú minnihlutastjórn sem nú skilar innan skamms af sér völdum, skilar þeim til baka, skilar af sér umboðinu, mundi standa við stóru orðin, mundi nýta þennan skamma tíma sem hún hugðist starfa til að bæta ástandið enda var lagt upp með það í upphafi þessarar vegferðar að afar brýnt væri að ganga ekki til kosninga fyrr en undir vorið vegna þess að í millitíðinni átti að grípa til aðgerða sem brýnt væri að hrinda í framkvæmd.

Margir trúðu því að gripið yrði til raunhæfra aðgerða til að takast á við vanda heimila og fyrirtækja. Þær vonir eru nú brostnar, væntingum um að á starfstímanum mundi ríkisstjórnin laga ástandið hefur verið mætt með veikari krónu, auknu atvinnuleysi og endurreisn bankanna hefur tafist. Þeir flokkar sem nú sitja saman í ríkisstjórninni og hafa talað sig inn á það að halda áfram að starfa saman eftir kosningar eru ekki með uppi á borðum lausnir sem er líklegt að leiði til árangurs í þeirri erfiðu vegferð sem er fram undan. Ég verð að segja að ég tel að það hefði verið betra að ganga strax til kosninga þegar fyrri ríkisstjórn sprakk en núna vegna þess að engum dylst að ástandið í dag er verra í öllu tilliti en þegar lagt var upp í þessa vegferð með stuðningi Framsóknarflokksins. (Gripið fram í.)