136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

frestun á fundum Alþingis.

473. mál
[11:25]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Meginatriði málsins er þetta: Ástandið í dag er verra en það var þegar ríkisstjórnin tók við. Það er alveg rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra, það hefði verið betra að nýta tímann til að bæta ástandið fram að kosningum. Það er nákvæmlega það sem við sögðum í lok janúar þegar ríkisstjórnin sprakk: Nú þarf að grípa til aðgerða til að bæta ástandið. Niðurstaðan af þessum leiðangri minnihlutastjórnarinnar er sú að ástandið hefur versnað þannig að tímanum hefur verið illa varið og það er meginatriði málsins. Tímanum í þinginu hefur m.a. verið varið (LB: Í málþóf.) í að setja ný met. [Háreysti í þingsal.] Virðulegi forseti. Það hafa verið sett met hérna, hvert metið á fætur öðru. (Gripið fram í: Í málþófi.) Sá sem á Íslandsmetið í málþófi (Gripið fram í.) situr hér sem hæstv. forsætisráðherra. Það met verður aldrei slegið. [Háreysti í þingsal.] Virðulegi forseti. (Forseti hringir.)

(Forseti (GuðbH): Forseti biður hv. þingmenn að gefa ræðumanni tækifæri til að flytja mál sitt.)

Virðulegi forseti. Tímanum hefur verið illa varið í að reyna að keyra hér í gegn mál í ágreiningi sem þjóðin bíður ekki eftir. Þjóðin bíður eftir lausnum fyrir fyrirtæki og heimili. Ríkisstjórnin hefur þess í stað ákveðið að verja tímanum í að setja ný met. Fjöldi næturfunda dag eftir dag, (Gripið fram í.) ný met á því sviði. (Gripið fram í.) Nýtt met (Gripið fram í: Leyfa sjálfstæðismönnum …) í fjölda daga sem líður frá lokum þinghalds til kosninga. Og það átti líka að rjúfa 50 ára hefð (Gripið fram í.) hvað það snertir að gera ekki breytingar á stjórnarskránni nema að höfðu samráði við alla flokka. Þetta er það sem ríkisstjórnin hefur verið að gera, þess vegna hefðum við betur gengið til kosninga strax (Forseti hringir.) (Gripið fram í: Nú?) í stað þess að gera ástandið verra en … [Háreysti í þingsal.]