136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

frestun á fundum Alþingis.

473. mál
[11:28]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Þetta er alveg kostulegt. Hver hafði þingrofsvald í lok janúarmánaðar sl.? Formaður Sjálfstæðisflokksins. Hann sagði af sér í stað þess að fara til forsetans og óska eftir kosningum. Nú kemur arftaki hans og segir að þetta hafi verið mistök, það hefði átt að kjósa í janúar. Á þeim tíma sagði Sjálfstæðisflokkurinn: Það er þvílíkt verk að vinna að greiða hér úr neyðarástandinu í samfélaginu eftir 18 ára valdatíma okkar að við þurfum helst ár til þess. Hvað er búið að gerast síðan 1. febrúar til og með nú? Sjálfstæðisflokkurinn hefur hér á þingi stutt líklega upp undir 30 frumvörp frá ríkisstjórninni (Gripið fram í: Segðu svo að …) sem lúta að því að búa um heimili og fyrirtæki í landinu. Með öðrum orðum, þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa talið öll þau mál svo góð að þeir hafa greitt þeim atkvæði. (Gripið fram í.) Að koma svo hér og [Háreysti í þingsal.] segja að ekkert hafi verið gert. Það rekur sig (Gripið fram í: Hvað hefur stjórnarandstaðan gert …?) hvað á annars horn hjá aumingja Sjálfstæðisflokknum, það stendur ekki steinn yfir steini í þessum málatilbúnaði. Þetta er mesta ráðleysi sem ég hef nokkurn tímann séð hjá flokki viku fyrir kosningar svo maður tali ekki um birtingarmyndir þingflokks Sjálfstæðisflokksins á Alþingi síðustu daga þar sem geðvonska virðist ráða för (Gripið fram í: Nú?) (Gripið fram í: Ha?) fyrst og fremst. [Háreysti í þingsal.] Flokkurinn byltist hér í þvílíkum stellingum að ég (Gripið fram í.) [Hlátur í þingsal.] — já, ég skal gera það. Ég á ekkert sérstaklega við hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur en ég hef haft það á tilfinningunni að það hafi ekki legið neitt sérstaklega vel á hv. þingmönnum Birni Bjarnasyni og Sturlu Böðvarssyni. [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í: Hvernig fær maður vinstri kreppuna?)