136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

frestun á fundum Alþingis.

473. mál
[11:31]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit hreinlega ekki í hvaða veröld hv. þm. Bjarni Benediktsson lifir eða hvar hann hefur haldið sig frá 1. febrúar. Hefur það farið fram hjá hv. þingmanni, formanni Sjálfstæðisflokksins, að nær öll mál sem þessi ríkisstjórn lagði upp með 1. febrúar í verkáætlun sinni eru í höfn? Hver voru þessi verkefni? Það eru þó nokkuð mörg mál sem ég hef ekki tíma til að telja upp sem snúa að heimilunum í landinu. Sennilega eru þetta ein 15 atriði í verkáætlun sem munu hjálpa heimilunum í þeim erfiðleikum sem fram undan eru.

Hvað með fyrirtækin? Hv. þingmaður veit mætavel að við höfum lagt grunn að því að hér sé hægt að reisa við atvinnulífið. Við höfum lagt fram tillögur sem munu á næstu mánuðum og missirum skapa 6.000 störf. Hv. þingmaður veit líka mætavel að við höfum farið í aðgerðir sem munu endurreisa hér bankakerfið og endurskipuleggja það þannig að hægt sé að endurfjármagna það svo það geti hjálpað atvinnulífinu.

Hv. þingmaður veit mætavel að varðandi okkar alþjóðlegu skuldbindingar höfum við sett þær í þann farveg að þær munu fá farsælan endi. Þetta var allt í kaldakoli þegar þessi ríkisstjórn tók við. Sú fyrri hafði ekkert gert í þessum málum. (Gripið fram í.) Svo leyfir hv. þingmaður sér að koma hér upp og segir að ekkert hafi verið gert. (Gripið fram í.) Hvar er verðbólgan stödd núna? Er hún ekki á niðurleið? Ég veit ekki betur. Menn tala hér um 20% atvinnuleysi. Síðast í morgun vorum við að ræða skýrslu Vinnumálastofnunar um að atvinnuleysið er heldur á niðurleið og það eru laus störf hjá Vinnumálastofnun sem hægt er að sækja um. Mér finnst fráleitur málflutningur hjá formanni Sjálfstæðisflokksins undir þessum dagskrárlið að halda þessu fram.

Síðan ætla þeir að enda þinghaldið með því að gefa lýðræðinu langt nef. Það er (Forseti hringir.) það sem stendur upp úr í þessu þinghaldi hjá sjálfstæðismönnum.