136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

frestun á fundum Alþingis.

473. mál
[11:46]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki einu sinni lína í þeirri orðræðu sem hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins flytja hér. Hv. þm. Bjarni Benediktsson (Gripið fram í.) kom hér og lýsti á hendur sér þvílíkum afrekum að hafa átt stóran þátt í öllum þeim fjölda lagafrumvarpa sem hér hafa verið samþykkt og lúta að heimilum og fyrirtækjum. Síðan kemur hv. þm. Birgir Ármannsson og segir að ekkert hafi gerst á þessum 80 dögum. Það væri mjög hyggilegt að hv. þingmenn samræmdu málflutning sinn í þessu, hvernig þeir ætli að haga þessu. En það er sami tónninn í ræðu hv. þm. Birgis Ármannssonar og í ræðu hv. þm. Bjarna Benediktssonar hvað það varðar að hann lýsir undrun sinni á því að núverandi ríkisstjórn sem styðst við þingmenn Framsóknarflokksins skuli ekki hafa náð að hreinsa upp fullkomlega 18 ára klúður Sjálfstæðisflokksins. (Gripið fram í: Það er annað að …) Þetta er þvílíkur málflutningur að hann á sér vart hliðstæðu. Þess á milli, í öllu gönuhlaupinu og vitleysunni, hleypur hv. þingmaður í það að skammast út í núverandi hæstv. fjármálaráðherra. Honum hefur aldrei dottið í hug að taka þátt í því að flytja á áttunda hundrað ræður til að koma í veg fyrir lýðræðisumbætur. (Gripið fram í: Jú, jú.) Aldrei nokkurn tímann hefði hv. þingmanni (Gripið fram í.) dottið í hug að eyða tíma sínum í þinginu (Gripið fram í.) til að koma í veg fyrir lýðræðisumbætur í samfélaginu og flytja í því skyni, til að verja hagsmuni flokks og óbreytt ástand, á áttunda hundrað ræður eða eiga þátt í því að slíkur málflutningur yrði stundaður. Hvernig ætlar hv. þingmaður að útskýra framgöngu Sjálfstæðisflokksins á þessum tíma og af þessum sökum? Hefur núverandi ríkisstjórn og núverandi meiri hluti ekki komið nema u.þ.b. 50 frumvörpum í gegn (Forseti hringir.) sem er miklum mun meira en nokkurn tímann fór í gegn meðan (Forseti hringir.) við störfuðum með hv. þingmanni?