136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

frestun á fundum Alþingis.

473. mál
[11:57]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Að mæta umræðunni af sanngirni og festu, það var einmitt það sem skorti á í ræðu hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar. Það er oft þannig að sannleikanum verður hver sárreiðastur og það kom mjög skýrt fram í viðbrögðum hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar og hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra þegar hv. þm. Bjarni Benediktsson gerði grein fyrir því í þessari umræðu þegar við erum að ljúka þinginu og fjöllum um frestunartillöguna, að nánast lítill árangur hafi orðið af starfi ríkisstjórnarinnar sem ætlaði sér svo mikla hluti, auðvitað var ástæða til að vekja athygli á því við þessar aðstæður. Það þýðir ekki fyrir hv. þm. Lúðvík Bergvinsson að kveinka sér undan þeirri orðræðu hér. Til þess tökum við þátt í umræðu á Alþingi, til að vekja athygli á því sem betur má fara en erum sanngjörn og málefnaleg. Það er aðalatriði málsins.

Ég tek undir það að við eigum að sýna auðmýkt. Alþingismenn eiga að sýna auðmýkt við þær aðstæður sem þjóðin stendur frammi fyrir. Við eigum að tala um lausnir en ekki áfellast aðra fyrir það sem viðkomandi hafa ekki gert. Við eigum að leggja upp lausnir í aðdraganda þessara kosninga. Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert það, ég skora á hv. þingmenn sem kenna sig við stjórnarliðið að gera það einnig og sýna auðmýkt í þessari umræðu.