136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

frestun á fundum Alþingis.

473. mál
[11:58]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst heldur betri tónn í síðari ræðu hv. þingmanns, hún var kannski meira í takt við það sem hv. þingmaður boðaði sjálfur. Staðreyndin er sú að þær lausnir sem hv. þingmaður kallar eftir að þeir stjórnmálaflokkar sem nú bjóða sig fram gefi út, lúta allar að því að leysa úr þeim vanda sem 18 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins hefur skapað. (Gripið fram í: Aleinn?) Meira og minna undir forustu Sjálfstæðisflokksins snúast þær kosningar sem nú eru fram undan leit að lausnum á þeim vanda sem 18 ára forustutíð Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn hefur skapað. Það er verkefnið. Og ég er sammála hv. þingmanni um að auðvitað á Sjálfstæðisflokkurinn að sýna auðmýkt við þessar aðstæður. Auðvitað á hann að tala af sanngirni en það var einmitt það sem hv. þm. Bjarni Benediktsson gerði ekki og rauf í raun og veru það samkomulag sem hér hafði náðst um að ljúka þingstörfum. Það var einmitt það sem gerðist, það var ekki sýnd sanngirni (Gripið fram í: Það var ekki málþóf.) og ekki auðmýkt í þessari umræðu. Í reynd var gerð sú krafa að eftir 18 ára afglöp Sjálfstæðisflokksins megi gagnrýna núverandi ríkisstjórn fyrir að hafa ekki hreinsað upp öll þau afglöp eða það tjón sem sá tími hefur valdið samfélaginu.