136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

frestun á fundum Alþingis.

473. mál
[12:26]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um samþykki til frestunar á fundum Alþingis skv. 1. mgr. 23. gr. stjórnarskrárinnar, sem hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að veita samþykki til þess að fundum þingsins verði frestað frá 16. apríl 2009 eða síðar, ef nauðsyn krefur.“

Út frá þessari tillögu sem hæstv. forsætisráðherra lagði fram hafa spunnist miklar umræður og hv. þm. og formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, reið á vaðið með miklum yfirlýsingum um stöðu mála og hvað gerst hefði að undanförnu. Reyndi hv. þingmaður og formaður Sjálfstæðisflokksins að hvítþvo Sjálfstæðisflokkinn af stöðu mála og kenna ríkisstjórn sem setið hefur í hundrað daga um það hvers vegna málum er svo komið sem raun ber vitni. Ríkisstjórn sem tók við af ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins sem hafði fullkomlega gefist upp á að takast á við þann vanda sem hún var búin að kalla yfir sig, ríkisstjórn sem var mynduð af Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og Samfylkingunni, með stuðningi Framsóknarflokksins, og með stuðningi Frjálslynda flokksins í mörgum málum og samstarfi þar. Stjórnarandstöðuflokkarnir tóku höndum saman þó að flokkarnir, bæði Framsóknarflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn, keyrðu eðlilega á sínum málum og stýrðu þannig afstöðu flokka sinna.

Það var táknrænt að sjá hvernig formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, sýndi að Sjálfstæðisflokkurinn er að fara á taugum. Sjálfstæðisflokkurinn gerir sér grein fyrir því að 18 ára samfelldri stjórn hans er lokið, henni er lokið og þó fyrr hefði verið. Þetta hefur verið ríkisstjórn einkavæðingar og frjálshyggju.

Ég minnist þess hvernig við börðumst hér á Alþingi gegn einkavæðingu bankanna sem var upphaf þess sem á eftir fór, einkavinavæðingar bankanna, hvernig þeim var skipt upp á milli gæðinga þeirra ríkisstjórnarflokka sem þá voru, og í kjölfarið kom síðan þessi græðgisvæðing. Ég vil einnig minna á þá meintu og miklu ágalla kvótakerfisins sem var framsal á aflaheimildum og veðsetning á óveiddum afla, óveiddum fiski, sem varð undirrótin að því að efnahagslíf okkar og fjármálalíf fór í þrot.

Í fjárlögum sem fyrrverandi ríkisstjórn gerði er gert ráð fyrir 170 milljarða kr. halla. Það var ekki sú ríkisstjórn sem nú situr, sem skilaði fjárlögum inn með þeim hætti. Ég hefði vænst þess að formaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarni Benediktsson, hefði reynt að hefja flokkinn sinn upp á ný með því að biðja þjóðina afsökunar á 18 ára stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins sem leiddi yfir landið meira efnahagshrun en í nokkru öðru landi nú. Sú stefna sem rekin var af hálfu Sjálfstæðisflokksins hefur leitt þessa djúpu lægð yfir okkur sem er miklu dýpri en í öðrum löndum.

Það er þetta uppgjör sem nú er að fara fram. Það er þetta uppgjör sem fer fram í næstu kosningum. Það er spurningin um það hvort fólk vill aftur kjósa Sjálfstæðisflokkinn yfir sig, flokk sem ekki hefur enn beðist afsökunar á hruninu, og snúa aftur til þess tíma og þess stjórnarfars sem hann leiddi. Eða vilja menn kjósa sér nýjan farveg sem byggist á nýjum gildum, sem eru heiðarleiki, samhjálp og samvinna þar sem við berum öll byrðarnar saman. Við berum öll ábyrgðina saman. Við sækjum fram á grunni þeirra sóknarmöguleika sem við höfum, sem eru miklir. Íslensk þjóð er öflug, vel menntuð og dugleg þjóð sem er vön að vinna. Ef við losnum við þá græðgisvæðingu sem hefur tröllriðið húsum á undanförnum árum og tökum aftur inn hin sönnu góðu gildi er ég viss um að við munum bjarga okkur vel á næstu missirum í gegnum þá kreppu sem er.

Maður einn sagði við mig: Við getum hert ólina. Við getum tekið á okkur erfiða tíma ef við erum þess fullviss að ekki verði farið í sama farið. Ekki verði farið aftur í sama farið og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins hefur keyrt í á undanförnum árum. Það er það sem við viljum fá tryggingu fyrir. Ég lofa því að við Vinstri græn munum ekki fara í það far. Við munum horfa fram veginn á nýjum forsendum og nýjum gildum þjóðinni til heilla. Ég vona að þegar þessu þingi lýkur og við göngum til kosninga verði nánast samfelldri ríkisstjórnartíð Sjálfstæðisflokksins til 18 ára lokið.

Við buðum þjóðstjórn í haust, því var hafnað. Við buðum aftur þjóðstjórn eftir áramót, því var líka hafnað. Við buðum þjóðstjórn í byrjun febrúar eða í lok janúar þegar ljóst var að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var hrunin, því var líka hafnað. Þá var ákveðið að fara út í þessa ríkisstjórn og hún hefur komið miklu í verk miðað við þann skamma tíma sem hún hefur haft. Ég óska þess, þjóðinni til heilla, að ríkisstjórnin geti haldið áfram að kosningum loknum og að við fáum ekki yfir okkur aftur ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins næstu 18 árin.