136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

frestun á fundum Alþingis.

473. mál
[12:33]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Gamla ríkisstjórnin, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, strandaði þjóðarskútunni. Það er aldrei góðs viti að láta brennuvarga vera í slökkviliðinu. Það sem er verra er að ný stjórn Vinstri grænna og Samfylkingar með stuðningi Framsóknar hefur ekkert gert sem skiptir máli. Eða svari hver fyrir sig, þeir sem reka heimili, hafið þið fundið einhverjar lagfæringar á stöðu ykkar? Hafið þið fundið fyrir því að hagur ykkar sé að lagast eða vænkast? Eða hjá þeim sem reka fyrirtæki?

Það er bara með ólíkindum hvernig staðan er og hún hefur ekki lagast. Fjórflokkurinn á að biðjast afsökunar. Það sem við þurfum að gera er að nýta auðlindir sjávar og landsins, spara eins og hægt er, skera niður og auka tekjur eftir því sem kostur er og skapa með því atvinnu og tekjur, útflutningstekjur. Við þurfum að auka veiðar og nauðsynlegt er að rödd Frjálslynda flokksins heyrist á Alþingi. Flokkar eiga að vera fyrir fólk en ekki öfugt.