136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[13:27]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Björn Bjarnason sagði að við værum að deila um keisarans skegg. Það er ekki þannig, virðulegur forseti. Í gær lögðu þingmenn Sjálfstæðisflokksins fram tillögu um auðlindirnar og ég benti á það í ræðu í gær að inn í hana vantaði að náttúruauðlindirnar mætti ekki selja eða láta varanlega af hendi. Það vantaði inn í tillögu þeirra. Það vantaði líka inn í tillöguna að lýsa yfir eignarhaldi á auðlindunum, að þær væru í þjóðareigu.

Sjálfstæðisflokkurinn panikeraði síðan þegar við fórum að benda á þetta hérna í ræðustóli. Þeir hlupu til og settu þessa setningu inn varðandi það að hvorki megi selja né láta varanlega af hendi náttúruauðlindirnar. En sú setning er tilgangslaus nema að það fylgi með að náttúruauðlindirnar séu í þjóðareigu. Eignarhaldið verður að vera skýrt.

Sjálfstæðisflokkurinn passar sig á því að geta þess ekki í tillögu sinni hvernig eignarhaldinu á að vera háttað. Þjóðin á að eiga þessar náttúruauðlindir. Þjóðareign má hvorki selja né láta varanlega af hendi.

Ég vil spyrja hv. þm. Björn Bjarnason: Af hverju getur Sjálfstæðisflokkurinn ekki bara gengið alla leið til okkar og fallist á orðalagið, að náttúruauðlindirnar séu þjóðareign? Þá hefur aðgangurinn merkingu, þ.e. að náttúruauðlindirnar megi ekki selja né láta varanlega af hendi. Þetta er ekki deila um keisarans skegg, þetta er deila um grundvallaratriði.