136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[13:29]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnarskrárn. s. (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er deila um keisarans skegg að velta fyrir sér af hverju við leggjum fram þessa tillögu ef menn eru sammála efni tillögunnar. Mér heyrðist að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson væri sammála efni tillögunnar eins og hún er núna. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir telur hins vegar að við hefðum átt að nota áfram hugtakið þjóðareign sem hefur valdið miklum deilum.

Við teljum að það sé óskynsamlegt í stjórnarskránni eins og ég sagði í ræðu minni að nota hugtök þar sem eru jafnilla skilgreind og hugtakið þjóðareign. Þess vegna tökum við af skarið í tillögu okkar um það að ríkið fari með þessar eignir og það vita allir hvað felst í því að ríkið fer með eignir af þessu tagi. Það er miklu skýrara og afdráttarlausara og ekki til þess fallið að valda þeim deilum sem deilurnar um hugtakið þjóðareign valda.