136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[13:30]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er ekki svona að okkar mati og að mínu mati. Tillagan eins og hún liggur fyrir núna frá Sjálfstæðisflokknum er trix. Það vantar helminginn inn í hana. Það vantar að lýsa yfir eignarhaldi á auðlindinni. Það vantar að lýsa því yfir að hún sé þjóðareign. Annars hefur það enga merkingu að náttúruauðlindina megi ekki selja né láta varanlega af hendi.

Sjálfstæðisflokkurinn er greinilega enn við það heygarðshorn að vilja ekki fallast á tillögur meiri hluta þingmanna. Ætlar að þráast við áfram og koma í veg fyrir að við getum afgreitt þetta mál sem við höfum rætt svo lengi í svo mörg ár. Ég vil minna á að þetta var líka ákvæði sem var samið um í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á sínum tíma og náðist ekki í gegn þá frekar en nú. Ég bara spyr: Hvenær ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að hleypa þessu í gegn?

Það er alveg ljóst að við verðum að halda stjórnlagaþing eða með einhverjum hætti að ná þessum vilja fram af því við erum alveg sannfærð um að þjóðin vill hafa það þannig.