136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[13:41]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Það er orðið fremur regla, frú forseti, en undantekning að sjálfstæðismenn komi hér í ræðupúltið og gefi mönnum sem eru á annarri skoðun en þeir einkunnir. Og yfirleitt laklegar, skikkja lýðskrumara var eitt dæmi um það. Við höfum heyrt mörg svona dæmi í umræðunni. Þeim sem eru ósammála Sjálfstæðisflokknum eru valin einkunnarorð sem eru ekki þeim til sóma sem færa þau fram.

Það er eitt sem ég gleymdi að nefna í fyrri ræðu minni, frú forseti, þegar ég hlustaði á andsvörin. Það er það að Sjálfstæðisflokkurinn er klofinn í þessu máli í herðar niður. (Gripið fram í.) Mér virðist af andsvörum að meiri hluti í flokknum styðji þessar breytingar þó að þeir vilji einhverjar minni háttar tæknilegar útfærslur. En það virðist einhver minnihlutahópur í flokknum hafa stjórnað för.

Þær athugasemdir sem þeir vitna stöðugt í eru langflestar um málsmeðferð og form en menn eru efnislega sammála í 2. og 3. gr. og 1. mgr. 1. gr. (Forseti hringir.)