136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[13:42]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt. Mjög margar af athugasemdum okkar og athugasemdum umsagnaraðila lúta að málsmeðferð og formi. Andstaða okkar hefur auðvitað byggst á því að við höfum talið að sú málsmeðferð sem hér hefur verið höfð uppi frá því að ríkisstjórnin tók ákvörðun um að beita sér fyrir þessum stjórnarskrárbreytingum hefur verið, að mínu mati eins og ég hef sagt í nokkrum ræðum hér í þinginu, skólabókardæmi um það hvernig á ekki að breyta stjórnarskrá. Hvernig á ekki að haga vinnubrögðum í málum af þessu tagi. Hvernig á ekki að standa að málum þegar grundvallarlöggjöf lýðveldisins er í húfi.

Ég er viss um að hv. þm. Atli Gíslason þekkir þau skrif fræðimanna á sviði stjórnskipunarréttar sem fjalla um hvernig breyta eigi stjórnarskrá bæði innlendra og erlendra. Alls staðar eru ákveðin viðmið lögð til grundvallar (Forseti hringir.) varfærni, vönduð málsmeðferð og víðtæk sátt.