136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:15]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það væri óskandi að hv. þingmaður hefði verið meira við umræðuna og tekið þátt í henni vegna þess að þá mundi hann vita það að Sjálfstæðisflokkurinn lagði til breytingartillögur strax í upphafi umræðunnar til að tryggja það að 79. gr. yrði breytt til að hægt væri með auðveldari hætti en nú er að gera breytingar á stjórnarskránni. Þetta hefur legið fyrir frá upphafi og ótrúlegt að það skuli fara fram hjá hv. þingmanni, sem kemur hérna við lok umræðunnar og belgir sig út.

Ég vil líka benda hv. þingmanni á að hæstv. forsætisráðherra sagði við 1. umr., með leyfi forseta:

„Hv. þingmaður spyr hvort þau ákvæði sem eru í frumvarpinu haggi í engu núverandi kvótakerfi. Ég kom mjög inn á það atriði í máli mínu og tel mikilvægt að árétta að stjórnarskrárákvæði um náttúruauðlindir í þjóðareign muni ekki skerða réttindi þeirra sem hafa veiðiheimildir í kvótakerfinu eða svipta þá kvótanum.“

Ef hv. þingmaður ætlar að halda því fram að sjálfstæðismenn séu að ganga hér einhverra sérhagsmuna, ganga hagsmuna LÍÚ eða þeirra sem eru handhafar kvótans, (GMJ: Ertu að þræta fyrir það?) þá er alveg ljóst (Forseti hringir.) að hæstv. forsætisráðherra sagði það sjálf í fyrsta andsvari sínu (Forseti hringir.) í þessari umræðu. Það er því ekki hægt að væna okkur um eitthvað (Forseti hringir.) sem hæstv. forsætisráðherra hefur sagt.