136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:18]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Öll þessi umræða um sameign þjóðarinnar og annað er varðar náttúruauðlindirnar er sérstök af hálfu Samfylkingarinnar. Ég hlýt að minna á að í lögum um stjórn fiskveiða, í 1. gr., er algjörlega gengið frá því, og þar höfðu sjálfstæðismenn forustu, að auðlindir sjávar væru sameign þjóðarinnar. Tillaga okkar er því að hluta til og að verulegu leyti til þess að undirstrika þær staðreyndir og koma í veg fyrir nokkurn misskilning í því efni.

Að öðru leyti verð ég að segja, hæstv. forseti, að það er mjög sorglegt hvað þessi ungi þingmaður leyfir sér að bera hér á borð fyrir okkur þingmenn af stóryrðum, ómálefnalegum stóryrðum, og ég hvet hann til þess, af því að ég veit að hann vill halda (Forseti hringir.) áfram í stjórnmálum, að ganga með öðrum hætti fram. (Forseti hringir.) Af því að hann er að hluta til Snæfellingur hvet ég hann alveg sérstaklega til þess að gera það.