136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:23]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Umræðan um stjórnarskipunarlögin heldur áfram. Gerð hefur verið grein fyrir framhaldsnefndaráliti nefndarinnar sem fjallaði um málið og gerð hefur verið grein fyrir þeim breytingartillögum og þeirri tillögu sem við sjálfstæðismenn höfum lagt fram við umræðuna.

Ég vil í upphafi máls míns undirstrika það alveg sérstaklega, vegna þess að hér hafa hv. þingmenn reynt að afflytja afstöðu okkar sjálfstæðismanna, að frá því fyrsta í þessari umræðu hefur komið skýrt fram af okkar hálfu að við viljum standa að breytingum á stjórnarskránni, breytingum sem gætu orðið til farsældar en ekki til þess að auka á óvissu í okkar íslenska samfélagi. Þess vegna bjuggumst við við því að forsætisráðherra, sem er 1. flutningsmaður að frumvarpinu, mundi leggja metnað sinn í það þegar hún komst til valda sem forsætisráðherra, að vinna að því að leggja fram frumvarp í sátt meðal flokka á Alþingi. Það fór á annan veg, því miður.

Við sjálfstæðismenn höfum lagt á það ríka áherslu, eins og ég sagði, að gera mætti breytingar á stjórnarskránni en við tökum ekki hverju sem er. Ég legg á það áherslu að við sjálfstæðismenn teljum að það sé hlutverk okkar, og við höfum skrifað undir eiðstaf um það, að vinna á grundvelli stjórnarskrárinnar. Við munum ekki og ég mun ekki standa að því sem þingmaður að ganga gegn Alþingi, ganga gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar.

Því miður, hæstv. forseti, fór það svo að forsætisráðherra stóð þannig að málum að hún lagði allt á sig sem hugsast gat til þess að reyna að koma í veg fyrir að við sjálfstæðismenn gætum staðið að því frumvarpi sem hér er til meðferðar. Það er kannski ekki við öðru að búast eins og til þeirrar ríkisstjórnar var stofnað. Ríkisstjórnin var mynduð í kjölfar ofbeldisaðgerða og árása á Alþingishúsið þar sem menn voru hræddir til þess að hlaupa frá stjórnarsamstarfinu. Samfylkingin sveik samstarfsmenn sína í ríkisstjórn, byrjaði að hlaupa frá stjórnarsamstarfinu í haust og það var vitað og þekkt og fylgst með því hvernig Samfylkingin hagaði sér í stjórnarsamstarfinu, talaði gegn ríkisstjórninni sem hún var í. Því var ekki við öðru að búast en að það færi sem fór.

Hvað um það, við höfum að sjálfsögðu gert ráð fyrir því að forsætisráðherra og ríkisstjórnin legði fram tillögur um breytingar á stjórnarskránni sem væru forsvaranlegar. Niðurstaða nær allra umsagnaraðila var að þessar breytingar væru óforsvaranlegar, illa unnar, allt of skammur tími til umfjöllunar og efnislega væru þær óforsvaranlegar. Það var á þeim grundvelli, málefnalegum grundvelli, sem við sjálfstæðismenn höfum lagst gegn frumvarpinu eins og það var lagt fram. Við höfum lagt okkur fram um að reyna að koma vitinu fyrir þá sem hafa unnið að málinu en því miður er breytingartillögum okkar hafnað.

Ég vil sérstaklega geta þess sem viðkemur breytingum á 1. gr. frumvarpsins og hér hefur verið nokkuð mikið til umræðu. Við lögðum okkur alveg sérstaklega fram, eins og fram kemur í breytingartillögunni, um að ná sáttum og leggja áherslu á að náttúruauðlindir okkar Íslendinga væru hvorki seljanlegar né látnar varanlega af hendi, ríkið hefði með þær að gera eins og fram kemur í breytingartillögu okkar.

Með sama hætti gátum við ekki fallist á það sjónarmið eða þá tillögu að setja á stjórnlagaþing þannig að tvö þing væru í gangi á sama tíma sem bæði gætu staðið að breytingum á stjórnarskránni. Það er þvílík aðstaða sem er algjörlega óforsvaranleg og á sér hvergi hliðstæðu í hinum vestræna lýðræðisheimi.

Hæstv. forseti. Ekki er tími til þess að fara efnislega ofan í þessar breytingartillögur okkar að öðru leyti, ég vísa bara til framsögumanns okkar hvað það varðar, en það liggur alveg ljóst fyrir að við sjálfstæðismenn gátum ekki fallist á tillögur sem gerðu ráð fyrir að ýta Alþingi Íslendinga til hliðar. Það er heilög skylda okkar alþingismanna að tryggja að Alþingi njóti virðingar og að við stöndum undir þeim kröfum sem gerðar eru til okkar sem hluta af löggjafarstarfinu.

Hæstv. forseti. Vegna þess að talað hefur verið um lýðræðisumbætur þá vil ég minna á að lýðræðisumbótunum sem áttu að verða, m.a. með breytingum á lögum um kosningar til Alþingis, var ýtt til hliðar og hefur ekki heyrst af þeim síðan.

Hæstv. forseti. Vegna þess að ég geri ekki ráð fyrir að halda mjög margar ræður hér til viðbótar á þessu þingi að sinni vil ég í lokin þakka þeim ágætu alþingismönnum sem hafa unnið með mér í gegnum tíðina, á vettvangi fjárlaganefndar, forsætisnefndar og í tengslum við starf mitt sem samgönguráðherra fyrir ánægjulegt samstarf. En umfram allt og ekki síður vil ég þakka skrifstofustjóra Alþingis og því góða fólki sem starfar á Alþingi fyrir góð störf og ánægjulegt samstarf.