136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnarskrárn. s. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að veita andsvar við því þakkarerindi sem hann flutti í lokin en vil þakka fyrir það samstarf sem við höfum átt. Það breytir ekki hinu að í fyrri hluta ræðunnar kviknuðu hjá mér nokkrar spurningar en ég mun ekki geta komið þeim öllum að.

Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni: Við sjálfstæðismenn tökum ekki hverju sem er. Og hvað erum við að tala um? Við erum að tala um auðlindir í þjóðareign sem var í stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokksins 2003 og 2007. Við erum að tala um einföldun á breytingu á stjórnarskrárákvæði, við erum að tala um þjóðaratkvæði og við erum að tala um stjórnlagaþing eða að endurtaka leikinn frá þjóðfundinum 1851.

Hv. þingmaður sagði enn fremur: Við höfum skrifað undir eiðstaf að stjórnarskránni. Mig langar að vita, svo að það liggi ekki í lausu lofti, hvort hv. þingmaður er að bera flutningsmenn þessa máls og þá sem það styðja þeim sökum að þeir séu að brjóta ákvæði stjórnarskrárinnar (Forseti hringir.) með því að leggja til (Forseti hringir.) að þessar hugmyndir verði að veruleika?