136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:35]
Horfa

Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Það hefur valdið mér miklum vonbrigðum að ekki skyldi nást sátt um hluta þeirrar tillögu sem hér liggur fyrir og þá það sem lá undir hvað varðar 1. og 2. gr., sem ég taldi að raunhæft væri að sátt gæti náðst um. Við sjálfstæðismenn teygðum okkur til sátta hvað varðar orðalag 1. gr. og ég tel að enginn efnismunur sé á þeirri 1. gr. sem við leggjum til eða því sem er í tillögu meiri hluta nefndarinnar að því undanskildu að vikið er til orðalags sem fræðimenn telja að sé nákvæmara og eðlilegra.

Í þessum umræðum hefur það ítrekað komið fram að 1. gr. hafi eitthvað með fiskveiðistjórnarkerfið að gera eða það sem þar er um að ræða en það er rangt. Í þeirri greinargerð sem fylgir frumvarpinu kemur það fram og lesa má um það í athugasemdum á bls. 15 flutningsmönnum til glöggvunar ef þeir átta sig ekki á því hvað þeir voru að leggja til í upphafi. Það hefur ekkert með breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu að gera. Þess vegna eru þær aðdróttanir sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson hélt fram í ræðustól á Alþingi, um að ég hefði gersamlega skipt um skoðun hvað varðar fiskveiðistjórnarkerfið, ómaklegar og rangar. Ég bendi honum á hans eigin orð í athugasemdum við frumvarpið, á bls. 15 í frumvarpinu sem lagt var til til stjórnarskipunarlaga, sem hann flytur. Ég lagði töluvert mikið á mig til þess að reyna að ná samkomulagi um 1. gr. og taldi að sátt ætti að geta náðst um þá tillögu sem við sjálfstæðismenn flytjum hér. Ég vona að það geti orðið að þingmenn samþykki þá tillögu, ég tel að hún hafi ákveðna þýðingu sem stefnuyfirlýsing.

Hv. þm. og formaður sérnefndarinnar, Lúðvík Bergvinsson, hefur líka haldið því fram að þær tillögur sem hér er um að ræða, sem við sjálfstæðismenn séum að hafna, séu merkustu tillögur til lýðræðisumbóta sem fram hafa komið. Þetta er rangt. Við sjálfstæðismenn höfum ekki hafnað einni eða neinni tillögu til lýðræðisumbóta ekki að einu eða neinu leyti. Við höfum bent á annmarka sem fram komu og viljað berjast fyrir því að greiðari leið væri til að breyta stjórnarskránni. Það er staðreyndin í málinu.

Þá hefur því líka verið haldið fram, m.a. af hæstv. forsætisráðherra og talsmönnum í sérnefnd um stjórnarskrármálið, að Sjálfstæðisflokkurinn sé með þessu að berjast gegn atriðum sem geti auðveldað aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Það er líka rangt. Ég vakti sérstaka athygli á því við 1. umr. frumvarpsins að það væri mjög sérstakt af flokki eins og Samfylkingunni sem segðist berjast fyrir því, og hefði það sem kosningastefnumál, að við sæktum um aðild að Evrópusambandinu að ekki væru gerðar nauðsynlegar breytingar á stjórnarskrá sem væri forsenda þess að Íslendingar gerðust aðilar að Evrópusambandinu.

Ég hef jafnframt sagt þá skoðun mína úr ræðustól á Alþingi að ég telji að það orki tvímælis að EES-samningurinn standist miðað við ákvæði stjórnarskrárinnar. Það er því til hneisu fyrir Samfylkinguna að standa svo að málum og reyna að segja rangt frá um þau atriði sem raunverulega er verið að fjalla um og halda því fram að efni frumvarpsins sé allt annað en það raunverulega er. Til að koma til móts við þau sjónarmið að farið yrði í vandaða vinnu varðandi breytingar á stjórnarskrá lögðum við þingmenn Sjálfstæðisflokksins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson fram tillögu um að skipuð yrði 25 manna nefnd, stór nefnd, til að fjalla faglega um þessi mál sem skilaði störfum á ákveðnum tíma. Þetta væri gert til að koma málinu í ákveðinn farveg, fara sömu leið og Svíar hefðu gert með mjög góðum árangri þannig að fullnaðarsamkomulag náðist um breytingar á stjórnarskrá hjá þeim. Þetta var innlegg okkar í umræðuna, jákvætt innlegg, til þess að ná fram lýðræðisumbótum í samræmi við það sem kröfur hafa verið um í þjóðfélaginu.

Virðulegi forseti. Með þetta í huga, og miðað við það sem ég lagði á mig til að reyna að ná samkomulagi, og meðnefndarmenn mínir margir, finnst mér miður að það skuli ekki hafa náðst. Ég hefði búist við því að jafnþingreyndur maður og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson er legði meira á sig til að ná samkomulagi en raun bar vitni. Um leið og tillögur okkar sjálfstæðismanna komu fram var nánast látið eins og það skipti engu máli og þau orð sem sögð höfðu verið væru ósögð. Ekki virðist nást nein breyting á stjórnarskránni og mér finnst miður að þær tillögur sem við flytjum, um breytingar á 1. gr. og 2. gr., skuli ekki nást fram að ganga. Ég hefði talið að veruleg réttarbót væri að því.