136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:43]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson kemur inn á varðandi stjórnlagaþingið frá 1851 er byggt á ákveðnum sögulegum misskilningi. Ég held að hann þurfi að lesa Íslandssöguna sína betur ef hann telur að stjórnlagaþingið 1851 sé einhver tilvísun í það sem nú er að gerast, svo er ekki. Alþingi var allt annars konar fyrirbrigði og íslenskt þjóðfélag með öðrum hætti en nú er.

Hvernig getur hv. þm. Lúðvík Bergvinsson haldið því fram að stjórnlagaþingið og val á það hefði verið rifið úr höndum flokkanna ef kosið hefði verið á það með þeim hætti sem fyrirhugað var? Ég get ekki séð að það hefði verið nein breyting hvað það varðar. Hvernig var hægt að koma í veg fyrir stjórnskipulega ringulreið, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, þegar búið var að kjósa Alþingi til að fara með breytingar á stjórnlögum og kjósa síðan stjórnlagaþing til að fara með þessar breytingar á stjórnlögum. Það hefði leitt til stjórnskipulegrar ringulreiðar og það var það sem ég var á móti.