136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:45]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst svona orðhengilsháttur nánast ekki sæma virðingu Alþingis. Það er öldungis ljóst að ég innan stjórnarskrárnefndar eins og félagar mínir vildum beita okkur fyrir margvíslegum breytingum eins og m.a. koma fram í þeim tillögum sem við flytjum. Það er staðreyndin í málinu.

Hins vegar liggur fyrir og hefur alltaf legið fyrir að við vorum ekki fylgjandi þeim tillögum sem lágu fyrir um stjórnlagaþing. Það hefur ekkert með íhaldssemi eða frjálslyndi að gera. Það hefur með heilbrigða skynsemi að gera, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, að vera á móti svona fáránlegum tillögum eins og settar voru fram af meiri hluta sérnefndarinnar sem flutti þetta frumvarp um það stjórnlagaþing sem þar var um að ræða, enda breyttist þetta fram og til baka í meðförum af því að það var engin vitglóra í því sem menn voru að hugsa (Forseti hringir.) og það hefði leitt til stjórnskipulegrar ringulreiðar og þess vegna voru sjálfstæðismenn á móti því.