136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:48]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sjálfstæðisflokkurinn hefur tvisvar tekið þátt í því að setja í stjórnarsáttmála sína ákvæði um þjóðareign á auðlindum. Ég átta mig því ekki á hvaða viðsnúningur er núna á ferðinni, hvers vegna menn treysta sér ekki til að setja það í stjórnarskrána að náttúruauðlindir séu þjóðareign sem ekki megi selja eða láta varanlega af hendi. Hvers vegna eru menn að hártoga texta í kringum það sem flokkurinn hefur sjálfur sett í stefnumál sín þegar hann hefur komið að ríkisstjórnaraðild? Getur einhver hv. þingmanna í Sjálfstæðisflokknum skýrt það fyrir mér, því að svo virðist sem ekki sé hægt að færa fyrir því nein skynsamleg rök hvers vegna sjálfstæðismenn geta ekki fallist á ákvæðið?