136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:58]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnarskrárn. s. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir ósk hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar um að formaður Sjálfstæðisflokksins verði viðstaddur þessa umræðu. Ég held að það sé mikilvægt að fram komi hvort ný forusta í Sjálfstæðisflokknum muni standa vörð á sama átt og sú gerði sem nú er farin. Ég held að það styrki umræðuna um lýðræðið á nýrri öld og gott að vita hvernig nýr formaður Sjálfstæðisflokksins muni leiða flokkinn í þeim efnum.

Ég vildi aðeins nefna það vegna þess að hér var óskað eftir viðveru forsætisráðherra að ég veit að hæstv. forsætisráðherra er á ársfundi Seðlabankans (Gripið fram í: Hann byrjar klukkan fjögur.) og áður en að því kom var hún á fundi með ríkissáttasemjara. Ég vissi af þessu. Hæstv. forsætisráðherra verður því fjarverandi um stund en það er meira en sjálfsagt að reyna að tryggja það að hæstv. forsætisráðherra verði viðstödd þessa umræðu um leið og mögulegt er. En hæstv. forsætisráðherra hefur ekki lagt lítið lóð á vogarskálarnar í þessari umræðu, hæstv. forsætisráðherra er 1. flutningsmaður málsins, (Forseti hringir.) og, hæstv. forseti, ég virði henni það til vorkunnar nú þegar 845 ræður hafa verið fluttar um málið að hún hafi ekki getað verið viðstödd þær allar.