136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:02]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Nú bregður svo við að sjálfstæðismenn taka það heldur óstinnt upp að óskað sé eftir því að formaður Sjálfstæðisflokksins sé viðstaddur þessa umræðu. (Gripið fram í.) Þeir setja upp einhvern svip og hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir gerir kröfu um það að ég skýri fyrir henni hvaða erindi ég eigi við formann Sjálfstæðisflokksins.

Við höfum upplifað það í þessari umræðu, sem er orðin alllöng eins og allir vita, að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa iðulega inn á milli í ræðum sínum óskað eftir því að einstakir ráðherrar komi til fundar og verði viðstaddir umræðuna. (Gripið fram í.) Þeir hafa oft komið hingað og verið viðstaddir þessa umræðu að nóttu sem degi og tekið þátt í henni. Þess hefur ekkert verið krafist að þingmenn Sjálfstæðisflokksins gerðu grein fyrir því hvað það væri sem þeir vildu eiga orðastað um við viðkomandi ráðherra. Þeir hafa komið og tekið þátt í þessari umræðu.

Ég óska eftir því að formaður Sjálfstæðisflokksins komi og verði viðstaddur þessa umræðu svo hægt sé að eiga við hann orðastað um stefnu og (Forseti hringir.) störf og framtíðarsýn Sjálfstæðisflokksins.