136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:05]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Nokkur orð vegna ummæla hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar sem ég fagna að sé kominn til þessarar umræðu. Hann hefur lítinn þátt tekið í henni fram til þessa. Það hefði verið ánægjulegt að heyra meira í hv. þingmanni Árna Þór Sigurðssyni og fá sjónarmið hans fram. Ég minnist þess ekki að hafa séð hann mikið í ræðustól út af þessu máli eða heyrt sjónarmið hans. En hafi hann hlýtt á ræður okkar hinna þá hlýtur hann að átta sig á ýmsum göllum á þessu máli og það kemur vonandi fram í ræðu hans á eftir.

En ég vil taka það fram, hæstv. forseti, að ef stífar óskir eru um að einstakir hv. þingmenn eða einstakir hæstv. ráðherrar verði viðstaddir umræðuna þá væri kannski ráð að gera hlé á fundi og bíða eftir því að við fáum niðurstöðu um það hvernig verður með þá hv. þingmenn og hæstv. ráðherra sem óskað er eftir. Um leið væri gott að fá skýringar frá hæstv. forseta um það hvernig hún hyggst halda (Forseti hringir.) áfram þingstörfum í dag.