136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:15]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef oft áður tekið þátt í þessari umræðu og lýst sjónarmiðum mínum um hvernig þessu máli hefur verið best fyrir komið. Það er reyndar þannig að með þeim breytingartillögum sem sjálfstæðisflokksfulltrúarnir í stjórnarskrárnefndinni tefldu fram, þá kemur alveg skýrt fram að undir öllum kringumstæðum vill Sjálfstæðisflokkurinn að það sé þjóðin sem staðfesti breytingar á stjórnarskránni.

Þar var miðað við að sú tillaga sem kom fram hjá fulltrúum í stjórnarskrárnefnd árið 2007, sem allir flokkar skrifuðu upp á, yrði lögð til grundvallar við breytingar á 79. gr. Sjálfstæðisflokkurinn ályktaði einnig um það á landsfundi sínum að færa ætti í lög ákvæði um að þjóðaratkvæðagreiðslur færu fram þegar tiltekinn fjöldi þjóðarinnar óskaði eftir því.