136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:20]
Horfa

Kristrún Heimisdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Nú sér fyrir endann á ákaflega sögulegu þingi í sögu þjóðarinnar. Þetta þing hefur verið óvenjulegt í alla staði og atburðir hér innan þings og utan verða lengi í minnum hafðir.

Segja má að fyrir utan þinghúsið hafi risið sú gamla hefð frá því á þingtíma þjóðveldisins að menn gerðu háreysti og þannig haft áhrif á þingstörf. Menn geta svo spurt sig hversu gagnleg eða lýðræðisleg sú aðferð hafi verið. Hún á sér sem sagt stoð í sögu þessarar öldnu stofnunar. En í öllu falli er ljóst að Alþingi og allir þeir sem hér eru verða að rísa undir þeirri ábyrgð að breyta vinnubrögðum þingsins, að mæta þeirri umræðu sem stendur yfir í samfélaginu og að reisa við virðingu Alþingis.

Sumir kunna að vera þeirrar skoðunar að skoðanakannanir um virðingu fyrir stofnunum sé ekki endilega heilagur sannleikur en þegar staða Alþingis er orðin sú sem hún er núna í almennum skoðanakönnunum í landinu, sem almennt eru taldar vísindalegar, þá hljóta allir stjórnmálaflokkar og allir þeir sem tekið hafa sæti á Alþingi eða njóta lýðræðislegs umboðs til að starfa hér, að taka það til sín.

Hvernig svo sem til þeirra stjórnlagabreytinga var efnt sem hér hafa verið til umræðu síðustu vikur og hvaða svo sem óvenjulegu aðstæður það eru sem til þess hafa orðið hljóta það að vera mikil vonbrigði öllum þeim sem hafa mikinn áhuga á því að á Íslandi sé frjálslegt lýðræði, byggt á sterkum stjórnskipulegum grunni, að út úr þeirri umræðu komi ekki neitt.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur auðvitað skorið sig úr í umræðunni. Hægt var að hafa vissa samúð með því sjónarmiði Sjálfstæðisflokksins að stjórnlagaþingið og hugmyndin um það væri ekki fullkomlega hugsuð á þann besta veg sem mögulegur væri. En í ljósi þess að Framsóknarflokkurinn hafði lýst því yfir að endurskoða mætti þá tillögu — og hefur sú sem hér stendur fylgst af mikilli athygli með ræðum sjálfstæðismanna undanfarnar vikur — og í ljósi þess að sjálfstæðismenn höfðu margir margítrekað — þar á meðal helstu forustumenn eins og komið hefur fram í umræðunni, fyrrverandi formaður flokksins, núverandi formaður flokksins og varaformaður flokksins — lýst því yfir að flokkurinn væri fyllilega reiðubúinn til að gera ákveðnar breytingar — þ.e. að auðvelda breytingar á stjórnarskránni og margir höfðu í umræðunni, þar á meðal núverandi formaður flokksins, hv. þm. Bjarni Benediktsson, í ræðu sem ég hlýddi á gefið til kynna vilja til þess að lögfesta í stjórnarskrá þjóðareign á náttúruauðlindum — eru það gríðarleg vonbrigði að Sjálfstæðisflokkurinn skuli ekki vera reiðubúinn til þess að ná samningum um þessa tvo þætti þess máls sem hér liggur fyrir þinginu.

Ég vil sérstaklega benda á að auðvitað er það langsamlega æskilegast og í raun nauðsynleg lýðræðisleg krafa að stjórnarskrá sé breytt og henni sé þokað áfram í sem mestri sátt allra þeirra sem þátt taka í stjórnmálum, allra stjórnmálaflokka. En við megum ekki gleyma því að stjórnmál eru ekki einkamál stjórnmálaflokka. Stjórnmál eru hluti af breiðara lýðræðislegu samfélagi og það skiptir miklu máli. Við sjáum það af sögunni að við Íslendingar höfum verið í einhvers konar læstri stöðu. Okkur hefur ekki gengið vel að þróa stjórnarskrána og okkur hefur ekki gengið vel að breyta henni. Úr því verður að bæta. Við hljótum að verða að stíga út úr því ferli.

Ég nefndi áðan tvö atriði, annars vegar að auðvelda breytingu á stjórnarskránni, sem var tillaga stjórnarskrárnefndar er starfaði á síðasta kjörtímabili. Nefndin skilaði tillögunni til þingsins en ekki náðist að afgreiða hana fyrir síðustu kosningar. Það er með hreinum ólíkindum að ekki skuli hafa tekist að koma því máli í höfn og það ber að harma.

Hins vegar er um að ræða breytingu sem á sér mjög langa forsögu, með aðkomu allra flokka og meira að segja að tilteknu frumkvæði Sjálfstæðisflokksins. Ákvæðið um þjóðareign var nefnilega í upphafi mótað í nefnd sem sett var á stofn, ef ég man rétt, árið 1999 og Jóhannes Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóri, veitti forustu. Síðan er liðinn áratugur og stjórnarsáttmálar hafa tilgreint að breytingar skyldu gerðar í þessa átt og málið hefur satt að segja verið bæði þaulrætt og er þrautrætt. Og prófunin sem stjórnmálakerfið stóð frammi fyrir á þessum síðustu vikum var í raun það hvort Alþingi Íslendinga réði við að tryggja festu í stjórnarframkvæmd, skýra hið óskýra og leggja nýjan grundvöll að fiskveiðistjórnarkerfi sem hefur verið undirlagt réttaróvissu allt frá því 1982 þegar aflamarkskerfinu var komið á. Staðreynd er að fáum lögum í íslenska lagasafninu hefur verið breytt jafnoft á 27 árum. Breytingalögin eru öðru hvorum megin við fimmta tuginn. Ég hygg að enginn ábyrgur stjórnmálamaður hafi viðurkennt nokkru sinni að það hafi verið markmið laganna um stjórn fiskveiða að einkavæða auðlindina, fiskinn í sjónum, og breyta henni í kapítal sem yrði síðan spilapeningar í alls óskyldum atvinnurekstri á órafjarlægum svæðum.

Mér er mjög eftirminnileg heimsókn í Bolungarvík síðasta sumar þar sem kvótaeigandi stærði sig af fjárfestingum sínum í Reykjavík og öðrum háborgum heimskapítalismans, en þegar hann var spurður að því hvort hann hafi fjárfest eitthvað í heimabyggð þá hnussaði í honum og hann sagði: Svo vitlaus er ég ekki.

Það eru heldur engin rök, hinar holrómu upphrópanir úr fjarlægri fortíð, að endurskoðun framsalsveðsetningar og annarra einkaréttarlegra einkenna kvótans séu tilnefnd til að rústa þessum mikilvæga atvinnuvegi. Að mínu viti verður Sjálfstæðisflokkurinn að tala skynsamlegra en þetta og ég gæti líka bætt því við að hagsmunasamtök útvegsmanna þyrftu að gera það einnig.

Allir sem þekkja sögu kvótakerfisins, fræga dóma Hæstaréttar á síðustu árum og umræðuna miklu sem farið hefur fram meðal lærðra og leikra, atvinnufólks í greininni, fræðimanna og greinenda vita að það er tvennt sem hefur verið taumurinn á myndun einkaeignaréttar í kvótakerfinu. Í fyrsta lagi einkaréttarfyrirvarinn úr 2. gr. upphaflegu laganna 1982. Í öðru lagi hin almenna jafnræðisregla stjórnarskrárinnar.

Ég vil nota tækifærið til þess að vekja athygli á því sem horft hefur verið fram hjá í þessari umræðu og hefur með það að gera hvaða réttaráhrif breytingar geti haft, þ.e. innleiðing þjóðareignar í stjórnarskrá. Það hefur nefnilega algerlega verið horft fram hjá því til þessa að álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna markar tímamót í sögu kvótakerfisins. Einkum vegna þess að í því áliti felst að jafnræðisregla samnings Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sem jafnræðisregla stjórnarskrárinnar frá 1995 er m.a. byggð á og horft skal til sem lögskýringargagns, er beitt á íslenska kvótakerfið, ekki einungis framkvæmd þess núna, heldur tilurðina sjálfa. Hvernig veiðiheimildunum var upphaflega úthlutað, hvort það hafi verið sanngjarnt og réttlátt hvernig að því var staðið.

Ég ætla að rifja það upp að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar fylgdi í hvívetna starfsreglum á ferli mannréttindanefndarinnar, með svari sínu til hennar, og vinna við endurskoðun kerfisins hefði hafist í haust hefði fjármálakreppan ekki sett hér allt í uppnám. Núverandi ríkisstjórn er að sjálfsögðu bundin af þessu ferli og væntanleg ríkisstjórn er það einnig.

Í efnismiklu svari ríkisstjórnarinnar til nefndarinnar er gert ráð fyrir ýmsum leiðum til endurskoðunar og þar á meðal er í raun gert ráð fyrir fyrningarleið af einhverju tagi. Það er alveg ljóst að eignarréttarfyrirvarann frá 1982 þarf að styrkja og leiðin sem nefnd Jóhannesar Nordals, sem hann var formaður fyrir, fann um aldamótin 2000 er einfaldlega sú besta sem enn hefur komið fram og nýtur hér auðheyrilega — segi ég eftir að hafa hlýtt á ræður sjálfstæðismanna undanfarnar vikur — víðtæks stuðnings sem nær inn í alla flokka.

Ég bendi á að hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, talaði við þjóðina í sjónvarpinu í gær og hélt því fram fullum fetum að þjóðareignarhugtakið væri svo óskýrt að ekki væri hægt að nota það. Samt sem áður beitti hann því síðan sjálfur til að túlka hugsun sína og tjá þá hugsun sem hann hafði í málinu. Og ef það hefði ekki fallið um sjálft sig að halda því fram að hugtak sé ónothæft sem menn svo beita sjálfir í sömu setningu, þá veit ég ekki hvernig hægt er að halda nokkru fram.

Að halda því fram að þjóðareignarákvæðið rústi atvinnugreininni er einfaldlega neyðarlegt. Útfærslan sem hér lá fyrir var vissulega málamiðlun en að uppfylltum kröfum um skýrleika hefði þetta þing stigið sögulegt skref til þess að byggja upp útgerð við Ísland á dögum stórskuldugra útgerða og bindingar gervieigna einstaklinga á óveiddum fiski í erlendum bönkum. Það er svo mikilvægt að hafa það í huga að styrking almannaeignar eða þjóðareignar á kvóta og aflamarki gæti einmitt verið bjarghringur ýmissa þjóðhagslega mikilvægra fyrirtækja í sjávarútvegi og að endurskoðun kvótakerfisins sem hefur nú þegar verið ákveðin í svarinu til mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna mundi styrkja stöðu okkar sem viljum greina á milli spilapeninga áhættusækinna ungra karlmanna sem geysast um kasínóheiminn annars vegar og þeirra hinna sem nýta auðlindir landsins með útgerð, sem er alvöruatvinnurekstur.

Að mínu mati þarf Sjálfstæðisflokkurinn núna að rifja upp hvað það er að veita raunverulega forustu. Það að veita raunverulega forustu er ekki að hamra á hræðsluáróðri með hömrum sem þeim eru réttir af hagsmunagæslumönnum. Nú er einfaldlega svo að við erum öll á sama báti, eigendur útgerðarfélaga, fólkið sem hjá þeim vinnur, byggðarlögin og Ísland í heild. Einkaeignarréttur, ótakmarkað frjálst framsal og veðsetning eru alls ekki svörin við vanda okkar tíðar. Þau eru ekki fyrir útgerðarmenn, ekki fyrir byggðarlögin og ekki fyrir Ísland.

Þegar peningakröfur erlendra banka eru eins og þær eru nú er mikilvægt að við reisum öll varnarmúra svo þær nái ekki til auðlinda landsins.