136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:39]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem hv. þingmaður sagði um túlkun dómstóla er rétt. Það sem hjálpar dómstólum til að túlka lagaákvæði, þar á meðal stjórnarskrárákvæði, eru lögskýringargögn, m.a. greinargerð með frumvarpinu, ræða framsögumanns og slík gögn.

Í ræðu framsögumanns með frumvarpinu kemur skýrt fram, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að hafa í huga að þessu nýja stjórnarskrárákvæði er ekki ætlað að svipta menn þeim réttindum sem þeir hafa öðlast, svo sem afnotarétti af náttúruauðlindum eða atvinnuréttindum á grundvelli opinberra leyfa sem kunna að njóta verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar sem óbein eignarréttindi. Með ákvæðinu er til dæmis ekki haggað við slíkum réttindum þeirra sem hagnýta jarðir og ýmis fasteignatengd réttindi eða stunda fiskveiðar á grundvelli veiðiheimilda.“

Þetta ítrekaði framsögumaðurinn síðar. Hvað sem líður túlkun hv. þingmanns eru lögskýringargögnin þess eðlis að ætla má að dómstólar hefðu túlkað málið með þeim hætti að stjórnarskrárbreytingin (Forseti hringir.) hefði engin áhrif á kvótakerfið eins og það liggur nú fyrir.