136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

almenn hegningarlög.

342. mál
[15:45]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, mál nr. 342. Innkoma þess í þingið og afgreiðsla þess í allsherjarnefnd var afar óvenjuleg. Á fundi allsherjarnefndar síðla vetrar var sett á dagskrá þetta ákveðna mál, frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum hvað varðar vændi. Það hafði ekki komið á dagskrá allsherjarnefndar þennan þingveturinn en á fundi nefndarinnar töldu menn að meiningin væri að hefja umræðu um málið, kalla til gesti og velta vöngum yfir málinu. Meiri hluti allsherjarnefndar lagði þá til að það yrði tekið út umræðulaust. Ég held að það sé einsdæmi að svona sé staðið að málum. Mér finnst það afar óheppilegt og raunar alveg fyrir neðan allar hellur að ekki hafi verið á það hlustað að þingmenn í allsherjarnefnd þyrftu að kynna sér þetta mál. Þess vegna stend ég sem einn fulltrúi í allsherjarnefnd hérna með þetta mál fyrir framan mig og hef engar forsendur til að tala um það í þingsalnum. Ekki var gefinn kostur á því í allsherjarnefnd að það yrði rætt, mál sem varðar breytingu á einum mikilvægasta lagabálki þjóðarinnar. Fulltrúi í allsherjarnefnd hefur ekki forsendu til að átta sig á því hvaða sjónarmið liggja þarna að baki.

Óskað var eftir því að kallaðir yrðu til gestir. Óskað var eftir því að hæstv. dómsmálaráðherra kæmi fyrir nefndina og gerði grein fyrir þeim sjónarmiðum sem áður höfðu komið fram á hennar grundvelli þar sem hún fór fyrir nefnd sem fjallaði um þetta mál þegar það var tekið á dagskrá á síðasta kjörtímabili. Því var hafnað. Óskað var eftir því að formaður refsiréttarnefndar kæmi á fund nefndarinnar og gerði grein fyrir sínum sjónarmiðum. Því var hafnað. Óskað var eftir því að prófessor í refsirétti kæmi fyrir nefndina og reifaði málið. Því var einnig hafnað. Óskað var eftir því að málið yrði tekið á dagskrá á næsta fundi allsherjarnefndar. Því var að sjálfsögðu, í samræmi við fyrri afgreiðslu í nefndinni, hafnað og málið tekið út þrátt fyrir að sjálfstæðismenn bæðu eindregið um að málið fengi einhverja umræðu þannig að menn gætu glöggvað sig á því og gert upp hug sinn til þess hvernig ætti að fara með það. Þess vegna var algjörlega ófært fyrir mig í allsherjarnefnd að móta mér skoðun á málinu eins og það var lagt upp af hálfu meiri hluta nefndarinnar.

Það áhugaverðasta við þetta allt saman var rökstuðningurinn fyrir því af hverju ekki þyrfti að ræða málið í allsherjarnefnd, af hverju ekki þyrfti að taka það almennilega á dagskrá, af hverju ekki ættu að koma gestir. Ástæðan var sú að málið hafði verið rætt á kjörtímabilinu 2003–2007. Þá hafði málið fengið mjög ítarlega umræðu, margir gestir höfðu verið kallaðir til, menn höfðu farið í ýmsa vinnu til að fara yfir málið þannig að það var alveg ljóst að málið var afskaplega vel unnið á kjörtímabilinu 2003–2007 og algjör óþarfi að ræða aftur. Ég sat ekki á þingi á kjörtímabilinu 2003–2007. Meiri hluti allsherjarnefndar sat ekki á þingi á því kjörtímabili heldur. Þingheimur allur hefur gjörbreyst enda varð mikil endurnýjun í kosningunum 2007.

Ágætur félagi í háskólanum, formaður allsherjarnefndar, Árni Páll Árnason, kom með mér á þing árið 2007. Hann tók ekki þátt í þeim merku umræðum sem urðu á þinginu í allsherjarnefnd á kjörtímabilinu 2003–2007 en það kom ekki í veg fyrir að hann tæki málið keikur út úr nefndinni og fyndist ekkert athugavert við að gera eins og hann gerði.

Hv. þm. Árni Páll Árnason hélt ræðu áðan og fór mikinn í gagnrýni sinni á Sjálfstæðisflokkinn í svokölluðu stjórnarskrármáli. Ég ætla ekki að fara efnislega inn í það mál eða hvernig það er tilkomið en hins vegar ætla ég að vitna í hv. þm. Árna Pál Árnason þar sem hann sagði í dag, með leyfi forseta:

„Sjálfstæðisflokknum er ekkert heilagt þegar kemur að meðferð mála í þinginu.“

Mér þykir skjóta ansi skökku við að hv. þm. Árni Páll Árnason kjósi að velja orð sín með þessum hætti. Ég vona að þessi atburðarás og sá atburður sem varð í allsherjarnefnd í kringum þetta mál hafi verið einsdæmi. Nefndin hefur unnið afskaplega gott starf á þessu kjörtímabili, bæði á meðan fyrri ríkisstjórn var við völd og líka undanfarna mánuði. Mikil samstaða hefur verið um málin og yfirleitt hafa menn viljað leita leiða til að leiða þau til lykta. Þess vegna var svo undarlegt, frú forseti, að formaður allsherjarnefndar og meiri hlutinn í allsherjarnefnd skyldu kjósa að gera þetta svona í stað þess að leyfa okkur að ræða málið. Ég vona svo sannarlega að þetta komi ekki fyrir aftur, að menn eigi það ekki framvegis á hættu að mál verði tekin út úr nefnd án þess að þau séu rædd.

Ég get sagt það fullum fetum að ég var ekki með fyrirframmótaðar skoðanir á því hvernig ég lít á þetta mál. Ég var ekki fyrir fram á móti því. Ég var mjög opin fyrir því, ég vildi bara fá umræðu um það í nefndinni. Þegar um er að ræða breytingar á hegningarlögum, hæstv. forseti, og þegar um er að ræða nefnd eins og allsherjarnefnd þar sem upp til hópa er farið mjög faglega yfir grundvallarlöggjöf í landinu er ekki hægt að taka mál út án þess að þau séu rædd nokkurn skapaðan hlut, án þess að gestir komi, án þess að umsagnir komi, og vitnað í afgreiðslu málsins á allt öðru kjörtímabili. Mér kemur ekkert við, frú forseti, hvað allsherjarnefnd hafði um þetta að segja á tímabilinu 2003–2007. Ég er ekkert endilega sammála þeim skoðunum sem þar komu fram. Til þess að ég geti mótað afstöðu mína í málinu verð ég að fá tækifæri til að tala við þá sérfræðinga og eiga líka orðastað við mína ágætu vini í allsherjarnefnd um málið. Þess vegna fannst mér þetta svo óskaplega leiðinlegt og þetta er aðaltilgangur minn hingað upp núna. Ég ætla ekki að ræða efni þessa máls, ég hef engar forsendur til þess, en ég bið þingmenn að hafa það í huga að þetta gerist ekki aftur, frú forseti.