136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

almenn hegningarlög.

342. mál
[15:53]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum nefndarálit hv. allsherjarnefndar um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum. Flutningsmenn þess frumvarps sem við ræðum eru hv. þm. Atli Gíslason, Ágúst Ólafur Ágústsson, Árni Þór Sigurðsson, Þuríður Backman, Katrín Júlíusdóttir, Lúðvík Bergvinsson, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Siv Friðleifsdóttir, Eygló Harðardóttir og Helga Sigrún Harðardóttir auk þeirrar sem hér stendur.

Frú forseti. Í nefndarálitinu er mælt með því að þetta frumvarp verði samþykkt sem þýðir að kaup á vændi yrðu þar með gerð refsiverð. Þetta er öðru sinni sem hv. allsherjarnefnd afgreiðir málið með þessum hætti. Fyrir sex árum lagði hv. allsherjarnefnd fram nefndarálit og mælti með samþykkt frumvarpsins. Þá náði það hins vegar ekki endanlegri afgreiðslu þingsins og það er rétt að taka fram að sama mál hefur verið lagt fyrir þingið oftar en í þessi tvö skipti. Hér er lagt til að sænska leiðin svokallaða sem leidd var í sænsk lög á síðasta ári, frú forseti, verði í lög leidd, kaupandi vændis gerður ábyrgur og að það sé refsivert að kaupa kynlífsþjónustu.

Eins og menn vita er vændi ein birtingarmynd kynferðisofbeldis. Flutningsmenn og meiri hluti hv. allsherjarnefndar telja ekki forsvaranlegt að heimila eða loka augunum fyrir sölu og kaupum á kynlífi enda ekki ásættanlegt að líta á mannslíkamann sem söluvöru. Í þessu máli er viðurkenndur sá mikli aðstöðumunur sem er á þeim sem í krafti peninga hefur eiginlegt val um að kaupa eða kaupa ekki kynlífsþjónustu og aftur hins eða hinnar sem selur aðgang að líkama sínum til kynlífsathafna, oft út úr neyð eða tilneydd. Kaupandinn hefur lykilstöðu og er með þessu móti gerður ábyrgur.

Það þarf ekki að ítreka hversu þekkt tengsl vændis og mansals eru. Mýmörg dæmi um slíkt hafa komið fram í nágrannalöndum okkar og það er ekki hægt að loka augunum fyrir því að slíkt gerist einnig á Íslandi.

Ekki hafa farið fram margar rannsóknir á áhrifum þess að lögum var breytt í þessa veru í Svíþjóð en engu að síður hefur verið gerð ein marktæk rannsókn sem rakin er í umsögn Mannréttindastofu sem lögð var fyrir hv. allsherjarnefnd. Þar kemur fram að áhrifin hafa orðið þau að dregið hefur úr götuvændi sem þeir sem hafa lagt þetta mál fram telja til mikilla bóta í Svíþjóð.

Ég tel, frú forseti, að hér sé um mikilvægt skref að ræða. Það er í samræmi við aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar gegn kynbundnu ofbeldi og það er mikilvægt að berjast gegn klámvæðingu samfélagsins, hvar sem er og hvenær sem er, klámvæðingu sem gerir út á markaðsvæðingu kvenlíkamans og nærist á kvenfyrirlitningu. Það er ekki hægt að varpa ábyrgðinni af vændi yfir á þann sem selur út úr neyð aðgang að líkama sínum. Það er nauðsynlegt að grípa til annarra ráðstafana. Það hefur sýnt sig að það að gera kaupandann ábyrgan er leið til þess að draga úr vændi og það er tímabært að það skref sé stigið hér á landi.