136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

almenn hegningarlög.

342. mál
[15:57]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Hér er komið til umræðu frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, með síðari breytingum, lagt fram af ýmsum þingmönnum í núverandi stjórnarminnihluta með stuðningi Framsóknarflokksins. (Gripið fram í.) Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ákvæði um refsinæmi þeirra er kaupa vændi þannig að hver sá sem greiðir eða heitir greiðslu eða öðrum ávinningi fyrir vændi skuli sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári. Er frumvarpinu ætlað að lögfesta svokallaða sænska leið sem gerir kaup á vændi refsiverð en Norðmenn fetuðu nýlega í fótspor Svía með því að kveða á um refsinæmi þess að kaupa vændi.

Það kom fram hjá hv. þm. Ólöfu Nordal sem á sæti í allsherjarnefnd, en ég á reyndar ekki sæti þar, að málið hefði ekki verið rætt í nefndinni á þessu kjörtímabili og nýir þingmenn ekki komið að því. Það var samt sem áður afgreitt út úr nefndinni fyrir stuttu án umræðu og það er fáheyrt, ef ekki með öllu óheyrt, að slík málsmeðferð eigi sér stað innan nefndar, ekki síst þegar um er að ræða mál sem hefur verið umdeilt mjög lengi. Það er ámælisvert að nýjum þingmönnum skuli ekki hafa verið gefinn kostur á að skoða og ræða málið sín á milli. Við skulum hafa í huga að í síðustu kosningum sem voru fyrir tæpum tveimur árum voru nýir þingmenn um þriðjungur þingheims. Þó að það hafi komið fram að í einhverjum mæli voru þingmenn í allsherjarnefnd frá síðasta kjörtímabili voru þar jafnframt nýir þingmenn sem höfðu ekki fengið tækifæri til að kynna sér málið. Ég verð að segja að mér þykir það ámælisvert og ekki vinnubrögð sem á að taka til fyrirmyndar, öðru nær. Það hlýtur líka að vekja til umhugsunar að fyrir þessum vinnubrögðum standa þingmenn flokka sem telja sér til tekna að standa fyrir opinni lýðræðislegri umræðu, umræðu sem sumir vilja einnig setja annan stimpil á, samræðustjórnmál.

Þetta hljóta að vera ámælisverð vinnubrögð, ekki síst í ljósi þess að frá þeim tíma þegar þetta mál var til umræðu síðast, á síðasta kjörtímabili, hafa Norðmenn breytt afstöðu sinni til málsins, þ.e. á árinu 2007 komust þeir að þeirri niðurstöðu að þeir vildu ekki fara þessa sænsku leið og birtu þá ítarlega skýrslu með rökstuðningi um af hverju þeir völdu að fara ekki þá leið, m.a. með vísan í það að árangur sænsku leiðarinnar væri óljós. Mun ég fara aðeins nánar í það á eftir. Hv. þingmenn fengu sem sagt ekki tækifæri til að spyrjast fyrir um hvað olli því að Norðmenn skiptu um skoðun, tóku aðra afstöðu og lögleiddu hina svokölluðu sænsku leið.

Aðkoma mín að þessu máli er á þann veg að ég átti sæti í starfsnefnd á vegum þáverandi dómsmálaráðherra Björns Bjarnasonar sem kynnti sér á árinu 2005 mismunandi löggjöf um vændi og fleira á Norðurlöndum og víðar. Þessi nefnd starfaði í u.þ.b. ár og í henni áttu sæti hv. þáverandi þingmenn, og sumir núverandi, Kolbrún Halldórsdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Gunnar Örlygsson sem var þá þingmaður Frjálslynda flokksins, Jónína Bjartmarz og síðan ég sem var þá varaþingmaður, en formaður starfshópsins var Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, sem jafnframt er núverandi dómsmálaráðherra. Skýrslan var gefin út í febrúar 2006. Nefndin komst ekki að sameiginlegri niðurstöðu, þrír vildu fara þá leið sem lagt er til í því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar en hinir þrír skiluðu tveimur álitum þar sem þeir komust að gagnstæðri niðurstöðu, þ.e. þeim þótti sænska leiðin ekki fýsileg.

Í raun má draga saman niðurstöðu þeirra sem voru mótfallnir því að fara þessa leið, m.a. með vísan í afstöðu Rögnu Árnadóttur, fulltrúa dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, sem var í raun og veru samhljóða og með sambærilegum rökum og við tvö, ég og Gunnar Örlygsson, tefldum fram. Ragna Árnadóttir, núverandi dómsmálaráðherra, segir m.a. í greinargerð sinni, með leyfi forseta:

„Það, sem vitað er um áhrif sænsku lagasetningarinnar, er þetta: Í kjölfar hennar minnkaði sýnilegt vændi, eða götuvændi, samkvæmt opinberum sænskum gögnum. Í sömu gögnum kemur einnig fram að ekki er vitað hvort dulið vændi hefur að sama skapi aukist. Þá fylgdi lagasetningunni í Svíþjóð sérstök fjárveiting sem gerði lögreglu kleift að einbeita sér að þessum málaflokki, og náðu aðgerðir hennar einkum til götuvændis. Þetta ber að hafa í huga þegar áhrif lagasetningarinnar eru metin.

Þegar metið er, hvort setja beri sams konar ákvæði í íslenska refsilöggjöf, verður í fyrsta lagi að athuga aðstæður hér á landi. Hér á allt annað við en í Svíþjóð, þar sem götuvændi dafnaði við fjölgun erlendra vændiskvenna, sem talið er að tengst hafi mansali og erfitt var að stöðva vegna sameiginlegra landamæra og nálægðar við önnur ríki. Hér er eftirlit við landamæri allt annað en í Svíþjóð og aðstæður til að sporna við mansali og vændi tengdu því allt aðrar og betri en þar. Því er það mitt álit að áður en ráðist er í lagasetningu að sænskri fyrirmynd eigi að taka mið af raunverulegum aðstæðum hér en ekki eins og þær voru í Svíþjóð árið 1999. Engin þjóð hefur enn fetað í fótspor Svía að þessu leyti, þótt þeir hafi vissulega verið fyrirmynd um margt.“

Í framhaldi af því má geta þess að Norðmenn breyttu afstöðu sinni. Eins og kom fram áðan tóku þeir þá ákvörðun árið 2004 að fara ekki þá leið en hafa hins vegar snúið við því blaði. Nú held ég áfram að lýsa afstöðu Rögnu Árnadóttur, núverandi dómsmálaráðherra, þar sem hún segir, með leyfi forseta:

„Í öðru lagi tel ég að möguleg varnaðaráhrif þess, að gera vændiskaup refsiverð, séu ofmetin. Vissulega má færa rök fyrir því að refsiákvæði mundi fæla frá löghlýðna og grandvara vændiskaupendur, en ekki er víst að ákvæðið hefði áhrif á aðra hópa vændiskaupenda. Lítið er vitað um þá karla, sem kaupa vændi á Íslandi, og því möguleg varnaðaráhrif óljósari en ella.

Í þriðja lagi tel ég rök standa til þess að refsiákvæði um vændiskaup yrði til þess að erfiðara yrði að ná til þeirra sem skipuleggja vændi, en það er hópur sem ég tel að þurfi síst að vernda, því að erfitt yrði að fá seljendur og kaupendur vændis til þess að vitna gegn þeim. Þeir einstaklingar, sem selja vændi, eru að líkindum háðir vændismiðlurunum á einn eða annan hátt, og því erfitt að fá þá til að vitna gegn þeim. Sama gildir um kaupendur, sem ættu þá á hættu lögreglurannsókn og e.t.v. ákæru ef upp um þá kæmist.

Í fjórða lagi tel ég það vera mikla einföldun að grundvalla refsiákvæði um kaup á vændi á því að ávallt sé aðstöðumunur á milli þess einstaklings sem selur vændi og einstaklings sem það kaupir. Aðstaða þeirra beggja getur til dæmis verið mjög bág.

Í fimmta lagi tel ég rétt að líta til gildandi laga á Íslandi og hvaða áhrif þau hafa haft. Samkvæmt íslenskum hegningarlögum er refsivert að greiða barni yngra en 18 ára fyrir samræði eða önnur kynferðismök. Á fundum starfshópsins komu fram upplýsingar um að stór hluti þeirra, sem stunda vændi á Íslandi, sé börn yngri en 18 ára. Þó virðist ekkert slíkt mál hafa komið til kasta lögreglu. Ekki hefur verið rannsakað í hverju varnaðaráhrif ákvæðisins felast. Ég tel rökrétt að rannsaka áhrif þeirra ákvæða, sem nú gilda um refsiverð vændiskaup af börnum, áður en löggjafinn ákveður að setja í lög ákvæði um refsiverð vændiskaup af fullorðnum.

Með vísan til framangreinds mæli ég ekki með því að farin verði sú leið að setja í lög ákvæði sem gerir kaup á vændi refsiverð og tel ég að huga eigi að öðrum úrræðum til þess að sporna við vændi.“

Þetta var afstaða þáverandi skrifstofustjóra í dómsmálaráðuneytinu, núverandi dómsmálaráðherra, Rögnu Árnadóttur, og ég tel mig hafa heimild fyrir því að hún hafi ekki breytt um skoðun í þessum efnum.

Nú eru sem sagt liðin þrjú ár frá því að þessi skýrsla kom fram og enn í dag liggja Svíar undir ámæli fyrir að hafa ekki látið vinna og birta niðurstöður rannsókna sem styðja fullyrðingu þeirra, um að hin svokallaða sænska leið hafi haft þau jákvæðu áhrif sem þeir hafa haldið fram. Á árinu 2005 fól Björn Bjarnason, þáverandi dóms- og kirkjumálaráðherra, Ragnheiði Bragadóttur að semja drög að frumvarpi um breytingu á tilteknum ákvæðum um kynferðisafbrotakafla almennra hegningarlaga, m.a. þær greinar laganna sem snúa að vændi. Í umfjöllun hennar og greinargerð með frumvarpinu kemur m.a. fram afstaða hennar. Hún telur að mjög takmarkaðar rannsóknir hafi farið fram hér á landi en að þær sem hafa verið gerðar bendi ekki síst til þess að vændi sé að finna meðal barna á aldrinum 13–18 ára. Þetta eru oft börn sem eru í vímuefnaneyslu, hafa verið misnotuð kynferðislega og standa félagslega höllum fæti. Þá virðist vændið vera stundað bæði af stúlkum og piltum. Reynsla þeirra sem starfa með þolendum kynferðisbrota bendir í sömu átt, þ.e. að vændi sé talsvert, einkum meðal barna og unglinga.

Rannsóknin sýnir einnig að stór hluti vændismarkaðarins er neðan jarðar enda alkunnugt að götuvændi tíðkast tæpast. Aðstæður hér eru því aðrar en í Svíþjóð þegar refsiákvæði um vændiskaup voru lögfest þar. Erfitt er að fullyrða nokkuð um hvaða almennu varnaðaráhrif lögfesting sænsku leiðarinnar muni hafa enda er ekkert vitað hverjir eru kaupendur vændis á Íslandi. Hugsanlega fælir sænska leiðin frá þá kaupendur sem talist geta „venjulegir viðskiptavinir“, þ.e. þá sem kaupa þjónustu vændiskvenna sjaldan og stundum nánast fyrir tilviljun. Hins vegar er vafasamt að hún hafi áhrif á þá ofbeldisfyllri sem hafa sterkari vilja til háttseminnar. Í greinargerð Ragnheiðar Bragadóttur segir áfram, með leyfi forseta:

„Með hliðsjón af því sem fram hefur komið er ljóst að ýmis sannfærandi rök hafa verið færð fram bæði með og á móti því að lögfesta hér refsiákvæði um vændiskaup. Lagabreytingar verða að taka mið af þjóðfélagsviðhorfum og aðstæðum hverju sinni. Því er nauðsynlegt að frekari rannsóknir fari fram á vændi á Íslandi, umfangi þess og eðli og hvernig best sé að taka á því, áður en lagðar eru til lagabreytingar í ætt við þá sem gerð var í Svíþjóð. Þá er það einnig verðugt rannsóknarefni hvað ræður því að vændi er svo lítt til meðferðar í réttarvörslukerfinu, ekki síst í ljósi þess að vitað er að það er stundað hér í einhverjum mæli. Það eru líka til önnur úrræði og væntanlega mun áhrifaríkari til að draga úr vændi en að refsa kaupendum þess. Refsing hefur í sjálfu sér aldrei verið heppileg leið til að leysa félagslegan vanda og ef aðrar leiðir eru færar á frekar að velja þær. Það þarf að finna orsök vandans og reyna að koma í veg fyrir að fólk leiðist út í vændi. Börn og unglingar sem sæta kynferðislegu ofbeldi, vanrækslu eða annarri misbeitingu eru áhættuhópur sem reynslan sýnir að getur orðið þolendur vændis, bæði sem seljendur og kaupendur. Markaðsvæðing kynlífs eykur líkur á að slíkir áhættuhópar byrji að stunda vændi. Því þarf að leggja áherslu á forvarnir, reyna að vernda þessi börn og unglinga, taka á starfsemi nektardansstaða og næturklúbba og vinna gegn þeim viðhorfum til kynlífs sem þeir standa fyrir. Ekki er ólíklegt að með jákvæðri og heilbrigðri fræðslu og upplýsingum um kynlíf megi breyta viðhorfi í þjóðfélaginu og draga úr eftirspurn eftir vændi. Með hliðsjón af framansögðu verður því ekki lagt til í frumvarpi þessu að lögð sé refsing við kaupum á vændi.“

Bæta má við að í þeim gögnum sem nefndin sem ég vísaði til áðan og ég átti sæti í hafði til umfjöllunar kom einmitt fram, bæði í gögnum frá Dönum og Norðmönnum, að þeir teldu vændi félagslegt vandamál sem þyrfti að taka á með úrræðum sem veitt eru af félagslega kerfinu og heilbrigðiskerfinu. Þar leggja þeir áherslu á félagslega hjálp til kvenna og karla sem stunda vændi og styðja þau í að velja nýjar brautir. Jafnframt kemur m.a. fram í skýrslu Dana að áhersla er lögð á að leita þá uppi sem stunda vændi og beina að þeim forvarnastarfi, ráðgjöf og draga úr skaða sem fylgir vændi, m.a. með ráðgjöf á internetinu. Þeir leggja sérstaklega áherslu á að hjálpa börnum og ungmennum sem eru í áhættuhópi með að stunda vændi. Þannig var það niðurstaða Dana, og reyndar Norðmanna á svipuðum tíma, að vændi væri félagslegt vandamál sem væri ekki hægt að leysa með refsingu.

Í nefndaráliti allsherjarnefndar frá árinu 2007 um breytingar á almennum hegningarlögum var jafnframt fjallað um breytingar á almennum hegningarlögum er varða vændi og kynferðisbrot. Í nefndaráliti fulltrúa flestra stjórnmálaflokka í allsherjarnefnd á þeim tíma, undirritað í mars 2007 af hv. þm. Bjarna Benediktssyni, Guðjóni Ólafi Jónssyni, Ágústi Ólafi Ágústssyni, Björgvini G. Sigurðssyni, Birgi Ármannssyni, Guðrúnu Ögmundsdóttur, Kjartani Ólafssyni og Sigurði Kára Kristjánssyni en Kolbrún Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar og var samþykk áliti þessu með fyrirvara, kemur m.a. eftirfarandi fram varðandi sænsku leiðina, með leyfi forseta:

„Miklar umræður spunnust meðal nefndarmanna um það hvort rétt væri að áskilja það að kaup á vændi væru refsinæm eins og lagt hefur verið til í þingmálum sem áður hafa komið til meðferðar nefndarinnar, svokölluð „sænsk leið“. Sú leið hefur þó þá ótvíræðu annmarka að hún færir vændið af götunum niður í undirheimana og að einhverju leyti yfir á veraldarvefinn og gerir það þannig ósýnilegra. Um leið verður erfiðara að ná til þeirra sem hafa milligöngu um það. Slíkt mundi hafa í för með sér aukningu á eftirliti lögreglu með brotum sem engir kærendur væru að. Nefndin bendir á að vændi er félagslegt vandamál og efast verður um að það verði leyst með refsingum. Niðurstaða nefndarinnar varð því sú að leggja þá breytingu að gera kaup á vændi refsinæm ekki til að svo komnu máli.“

Ég bendi sérstaklega á að hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson og Kolbrún Halldórsdóttir voru samþykk áliti þessu og þar af Kolbrún Halldórsdóttir með fyrirvara. Þau eru jafnframt flutningsmenn málsins sem hér er til umræðu.

Í ræðutíma mínum hef ég rakið ákveðna þróun í þessu máli, þá umræðu sem hefur farið fram og þá umfjöllun sem skýrsla starfshóps sem kynnti sér mismunandi löggjöf um vændi og fleira á Norðurlöndum og víðar komst að, þar á meðal hæstv. núverandi dómsmálaráðherra, Ragna Árnadóttir, sem var formaður nefndarinnar, sem komst að þeirri niðurstöðu á þeim tíma að ekki væri æskilegt að fara þessa svokölluðu sænsku leið. Jafnframt hef ég bent á þá umfjöllun sem kom fram í frumvarpi til laga um breytingu á almennum hegningarlögum á 133. löggjafarþingi og unnin var af Ragnheiði Bragadóttur prófessor þar sem hún leggur til að þessi leið verði ekki farin og svo aftur niðurstöðu allsherjarnefndar á 136. löggjafarþingi sem ég las áðan.

Ég vil segja að lokum að álit mitt hefur ekkert breyst frá því að ég átti sæti í þeirri nefnd sem ég nefndi áðan, skýrslu starfshóps sem kynnti sér mismunandi löggjöf um vændi og fleira á Norðurlöndum og víðar, og byggi þá ekki síst á því að rannsóknir hafa ekki með neinum ótvíræðum hætti bent til þess að sænska leiðin hafi bætt aðstæður viðkomandi kvenna.