136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

almenn hegningarlög.

342. mál
[16:15]
Horfa

umhverfisráðherra (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sé ástæðu til að koma í stutt andsvar við hv. þm. Ástu Möller vegna þess að hún vitnaði í nefndarálit frá árinu 2007 þar sem allsherjarnefnd var sammála um að afgreiða frá sér stórt og mikið frumvarp um meðferð sakamála, ef ég man rétt. Mjög margar verulega góðar úrbætur voru gerðar á þeirri löggjöf í þessu máli. Ég var áheyrnarfulltrúi í allsherjarnefnd á þessum tíma og fyrirvari minn, sem hún nefndi að hefði verið tekinn fram í niðurlagi nefndarálitsins að ég hefði haft um málið, laut nákvæmlega að þeim kafla sem hún vitnaði síðan til í nefndarálitinu. Ég vil meina að hv. þingmanni hefði mátt vera það ljóst þar sem hún veit sjónarmið mín varðandi vændi og ég tel ekki mikinn sóma að því að nota nákvæmlega þann kafla í nefndarálitinu sem hún veit að ég er andsnúin og hefði mátt segja sér sjálf að fyrirvari minn lyti að þegar hún fjallar um það mál sem við fjöllum hér um, að gera kaup á vændi refsiverð.

Fyrirvari minn var skýrður á þessum tíma og hv. þingmaður getur farið í ræðusafn Alþingis því til staðfestingar. Eins og segi tel ég að þingmanninum hefði mátt vera þetta ljóst og vil að það sé undirstrikað að fyrirvari minn við málið á þeim tíma, 2007, laut nákvæmlega að því sem hún vitnaði hér til, nefnilega umfjöllun þessarar allsherjarnefndar um að gera kaup á vændi refsiverð.