136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

almenn hegningarlög.

342. mál
[16:17]
Horfa

umhverfisráðherra (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að mér er mikið gleðiefni að stíga í pontu í dag þegar sér fyrir endann á þessu máli sem að öllum líkindum verður afgreitt með atkvæðagreiðslu frá Alþingi Íslendinga síðar í dag. Ég vil bara segja að það er búin að vera mikil barátta í þinginu að fá þetta mál í gegn. Stundum hafa sjónarmið sveiflast þannig að það hefur verið hreinn og klár meiri hluti með þessu máli, það hefur jafnvel lent þar í samningalotum í niðurlagi þings að breytingartillögur varðandi málið hafa þurft að hverfa út af sjónarsviðinu og hafa ekki verið bornar upp vegna ólgu og óánægju bak við tjöldin með að mögulega væri meiri hluti fyrir málinu. Gangarnir hafa logað af umræðum og mikill hiti verið í þeim. Sjónarmið hafa sannarlega verið mjög skipt.

Nú lít ég svo á að baráttan sé að baki. Við erum að leiða þetta mál til lykta í dag og ég vil bara segja að eftir allt sem á undan er gengið, alla þá baráttu sem mér er að mörgu leyti óskiljanleg, tel ég að niðurstaðan sé virkilega farsæl. Við getum vel við unað að á Alþingi Íslendinga skuli hafa myndast meiri hluti fyrir þessu máli, tryggur og traustur, og það segir mér að réttlætiskennd þingmanna hefur vaknað gagnvart því að hér sé um mikið réttlætismál að ræða, sanngirnismál og mannréttindamál.

Ég vil líka geta þess að í nýsamþykktri aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar gegn mansali kemur skýrt fram að þau sem sitja nú við stjórnvölinn, í þessari ríkisstjórn, eru þeirrar skoðunar að mansal, klám og vændi séu svo nátengd að það beri að vinna gegn hverri og einni af þessum þremur birtingarmyndum kynbundins ofbeldis.

Við höfum breytt löggjöfinni talsvert mikið á síðustu árum varðandi klámið. Við höfum gert ákveðnar bragarbætur á löggjöf varðandi mansal en höfum átt erfitt með, eins og ég sagði áðan, að lenda þessu máli og tryggja að kaup á vændi verði gerð refsiverð þar sem ábyrgðin er sett á herðar þeim sem hana á auðvitað að bera, herðar þess sem hefur val í raun og veru um að segja nei. Við sem höfum talað fyrir þessu máli hingað til lítum svo á að sá eða sú sem leiðist út í vændi eigi aldrei neitt val.

Það að þessi ríkisstjórn skuli hafa samþykkt aðgerðaáætlunina sem ég nefndi og skuli vera að leiða þetta mál til lykta í dag segir okkur eitt, að það skiptir máli hverjir stjórna, hverjir eru við völd. Það skiptir máli fyrir hvaða sjónarmiðum er talað við ríkisstjórnarborðið.

Þetta mál hefur verið eins konar tákn fyrir femíníska stefnu. Femínistar hafa lagt mjög mikið til málanna og við sjáum það á umsögnunum sem þingheimi hafa borist með þessu máli í gegnum árin, hin femínísku sjónarmið, hreyfingar femínista, Femínistafélagið og femínísk félög hafa ævinlega pressað mjög á þingmenn að samþykkja þetta mál.

Nú finnst mér þetta vera staðfesting á því að femínísk sjónarmið ráði för við ríkisstjórnarborðið, kannski ekki í öllum málum en í öllu falli mjög mörgum. Við erum með þessum málum að færa hin femínísku sjónarmið út í þingsalinn, til þingheims alls, og það er með nokkru stolti sem ég leyfi mér að standa hér og segja að femínísk sjónarmið hafi náð yfirhöndinni á Alþingi Íslendinga í tilteknum málum. Þetta mál er í mínum huga verulega sterkt tákn um það.

Það er því með miklu stolti að ég lýk máli mínu, hæstv. forseti, í þessari umræðu þegar hillir undir það að Alþingi Íslendinga samþykki að kaup á vændi verði gerð refsiverð.