136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

almenn hegningarlög.

342. mál
[16:22]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Það er sérdeilis undarlegt að upplifa hér í dag að heyra sjálfstæðismenn tala gegn og koma í veg fyrir brýnar lýðræðisúrbætur sem felast í breytingu á stjórnarskránni en leggjast á sama degi gegn réttarbótum í þágu kvenna, í þágu kynfrelsis kvenna, sama daginn, leggjast gegn lýðræðinu og beita sér ekki fyrir réttarbótum í þágu kvenna, leggjast gegn þeim líka, hvort tveggja sagt af formsástæðum, fyrst og fremst af formsástæðum, vegna undirbúnings, ónógrar málsmeðferðar og þar fram eftir götunum. Sjálfstæðismenn nota formsástæður til að leggjast gegn tveimur lykilmálum. Ég dreg þá ályktun að sjálfstæðismenn séu efnislega á móti lýðræðisumbótum og efnislega á móti því að bæta réttarstöðu kvenna, efla kynfrelsi þeirra, á móti lýðræði en með vændi sem sjálfstæðismenn leiddu í lög vorið 2007 og hafa ekki fylgt eftir boðuðum félagslegum úrbótum á þessu sviði.

Ég ræddi þetta mál sem 1. flutningsmaður við 1. umr. og ætla ekki að lengja málið mjög mikið. Ég vil þó segja gagnvart þessum formlegu ástæðum sem bornar eru upp varðandi formið að málið hefur margsinnis komið fyrir Alþingi. Leitað hefur verið umsagna um það, það er útrætt. Öll sjónarmið liggja fyrir. Nú er bara spurning um að segja já eða nei, styðja eða vera á móti. Fjöldi umsagna hefur borist um málið, þær eru langflestar jákvæðar og ég minni á umsögn Mannréttindaskrifstofunnar um sænsku leiðina frá árinu 2007 þar sem bent er á að götuvændi í Svíþjóð hafi minnkað. Ég minni líka á umsögn Rannsóknastofu Háskóla Íslands í kvenna- og kynjafræðum um mikinn aðstöðumun milli kaupanda og seljanda vændis þar sem kaupandi hefði val um hvort hann kaupir en seljandi sjaldnast eða yfirleitt aldrei neitt val vegna þess að vændið er stundað vegna neyðar, vegna eiturlyfjafíknar o.fl.

Ég tek líka fram að Norðmenn hafa nýverið fetað í fótspor Svía og samþykkt sambærilega löggjöf og við erum með á lokasprettinum. Ég vil enn fremur halda því til haga, frú forseti, að í Gallup-könnun árið 2007 kom í ljós að 70% landsmanna styðja það að vændiskaup verði gerð refsiverð, að sænska leiðin verði farin. Ég vil líka halda því til haga að það er afar víðtækur fiðringur meðal kvennahreyfingarinnar við það að kaup á vændi verði gerð refsiverð. Ég minni á að haustið 2003 sendu 14 samtök þingmönnum áskorun um að leiða slíkt bann í lög. Þetta voru Bríet – félag ungra femínista, Femínistafélag Íslands, Kvenfélagasamband Íslands, Kvennaathvarfið, Kvennakirkjan, Kvennaráðgjöfin, Kvenréttindafélag Íslands, Neyðarmóttaka vegna nauðgunar, Stígamót, tímaritið Vera, UNIFEM á Íslandi, Félag kvenna í læknastétt á Íslandi, Landssamband framsóknarkvenna og V-dagssamtökin. Í greinargerð með þessari áskorun er lögð áhersla á tengsl klámiðnaðarins og vændis og tekið undir það sjónarmið að vændi væri kynbundið ofbeldi sem bæri að vinna gegn. Undir þessa áskorun tökum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði heils hugar og ég er satt best að segja afar stoltur yfir því að fá tækifæri til að leggja þessu máli lið á lokasprettinum. Ég er afar þakklátur þeim sem hafa rutt brautina í þessum efnum, afar þakklátur þeim konum sem stóðu á bak við áskorunina frá árinu 2003 og ég held að ég halli á engan þótt ég nefni í lok ræðu minnar nafn hæstv. umhverfisráðherra Kolbrúnar Halldórsdóttur í þessu samhengi sem hefur verið vakin og sofin að vinna þessu máli framgang.