136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

almenn hegningarlög.

342. mál
[16:30]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Sjálfstæðismenn eru orðnir ótrúlega áhugasamir um formlega meðferð mála. Fyrir mig sem hef þó ekki setið lengur á þingi en frá vorinu 2007 er þessi áhugi alveg nýkviknaður. Hann kviknaði við stjórnarmyndunina í febrúar. (Gripið fram í.) Við afgreiddum fyrir jól 20–30 frumvörp sem jafnvel fóru ekki í nefnd og jafnvel var gengið svo langt að boða nefndarfundi áður en umræða var liðin eða haldinn nefndarfundur áður en málið kom til umræðu. (Gripið fram í: Óskað umsagna ...) Og óskað umsagna. (Gripið fram í: … nefnd.)

Þetta mál er þrælrætt (Gripið fram í: Ekki …) og það er ekkert í þingsköpum sem segir að þó að nýir þingmenn komi á þing sé ekki unnt að byggja á þeirri vinnu sem unnin hefur verið á þingunum þar á undan. (Gripið fram í.) Það er ekkert sem mælir gegn því. Hv. þingmanni, sem vísað var hér til, var í lófa lagið að kynna sér allar þessar umsagnir, skila séráliti og taka efnislega afstöðu til málsins. Hún hefur haft til þess nokkrar vikur. Henni og Sjálfstæðisflokknum var ekkert að vanbúnaði að taka efnislega afstöðu til málsins í stað þess að skýla sér bak við formsástæður. (ÁMöl: Þetta er ástæðan fyrir …)