136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[17:17]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hafa sett mál sitt fram með mjög sköruglegum og málefnalegum hætti. Hv. þingmaður veit að ég er henni að ýmsu leyti ósammála um þetta mál en geri mér hins vegar grein fyrir því að mörg þeirra raka sem hún setti fram eiga stuðning vísan. Það er ekkert launungarmál að ég hef stutt þetta mál, ekki síst með tilliti til atvinnuástands en ég vil hins vegar gera lýðum það algjörlega ljóst að ég hef aldrei sagt að þessi samningur eða þetta verkefni verði til þess að útrýma atvinnuleysi á Suðurnesjum en ég hef horft til atvinnuleysisstigsins.

Það er tvennt sem mig langar til þess að nefna sérstaklega: Þessi samningur verður ekki staðfestur fyrr en úrskurður er kominn frá ESA, svo að það liggi alveg ljóst fyrir. Í öðru lagi talaði hv. þingmaður töluvert um ágenga nýtingu jarðhita bæði á þessu svæði og á Hengilssvæðinu. Ég vil þess vegna að það komi algjörlega skýrt fram að ég hef falið starfshópi um rammaáætlun að setja starfsreglur þar um. Einn af þeim sem leiðir það starf er t.d. sá maður sem flokkur minn og flokkur hv. þingmanns hafa veitt þann trúnað að sitja í stjórn Landsvirkjunar. Það þýðir væntanlega að flokkur hv. þingmanns hefur fulla trú á þeim einstaklingi, sem er okkar fremsti sérfræðingur á sviði jarðhita eða meðal þeirra fremstu, þó að ég gæti talið upp nokkra góða líka þar til viðbótar.

Ég hef jafnframt lýst því yfir hér í þessum stóli tveimur sinnum að ég hyggist, verði ég áfram iðnaðarráðherra, að þær reglur verði staðfestar: Ég ætla mér ekki að heimila ágenga nýtingu jarðhita. Ég hef haldið sérstakt erindi um það tveimur sinnum og lýst nákvæmlega skoðunum mínum á því og ég fylgi þeirri reglu sem Gro Harlem Brundtland setti fyrst fram í frægri skýrslu að við eigum að skila auðlindunum í sama horfi til komandi kynslóða og við tókum við þeim. Þetta er grundvallaratriði af minni hálfu. Ég segi ekki að hv. þingmaður hafi sakað mig um það en (Forseti hringir.) ég vil að það liggi alveg ljóst fyrir hvaða afstöðu ég hef til nýtingar jarðhita.