136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[17:24]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Atvinnuleysi á Suðurnesjum er núna að nálgast 15%. Með því að byggja álver í Helguvík er hægt að skapa þrjú til fjögur þúsund störf. Auðvitað getum við haft skoðanir á því hvort það er sanngjarnt eða réttlátt eða gáfulegt að byggja álver en fram hjá þeim staðreyndum er ekki hægt að horfa að okkur vantar virkilega störf. Í nútímaálverum eru 30% af störfum kvennastörf þannig að það hjálpar til í því atvinnuleysi sem við búum við á Suðurnesjum og skiptir verulega miklu máli að þetta gangi eftir.

Skatttekjur af fyrirtækinu verða miklar í gegnum tíðina þegar það er komið í gang og byrjaður alvörurekstur í fyrirtækinu. Einnig mun tekjuskattur renna í ríkissjóð af launum starfsfólks, útsvarstekjur renna í sveitarsjóð sem og hafnargjöld. Ég neita því ekki að auðvitað væri gaman og gott ef hægt væri að búa til áliðngarða við hliðina á þessum álverum sem ynnu úr álinu ýmiss konar vörur. Þeir mundu skapa störf við hliðina á álverunum. En ekki er bent á neinar lausnir sem komast í hálfkvist við það sem álver gera. Þess vegna spyr ég hv. þm. Álfheiði Ingadóttur: Hvað leggið þið til (Forseti hringir.) í atvinnulegum skilningi? Komið þið einu sinni með það.