136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[17:33]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á að fagna því að þetta mál skuli vera tekið til umræðu. Það er búið að vera nokkuð lengi á dagskránni en hefði verið hægt fyrir nokkrum vikum síðan að taka það fyrir og afgreiða það frá þinginu ef hæstv. forseta hefði sýnst svo. Það hefur aldrei staðið til af hálfu okkar sjálfstæðismanna að tefja framgang þessa máls á einn eða annan hátt frekar en við höfum tafið þau mál önnur sem til þjóðþrifa horfa og verið hafa á dagskrá og afgreidd.

Það er dálítið sérstakt að hlusta á umræður eins og hér hafa farið fram, stælur um hversu mörg störfin verða sem álverið skapar á uppbyggingartímabilinu, þegar álverið er tekið til starfa og þar fram eftir götunum. Hvort þarna verði svona stórt álver eða heldur stærra álver eða enn þá stærra álver. Sannleikurinn er einfaldlega sá, og er miður að sú staða sé uppi hjá okkur, að hér er um verulegt atvinnuleysi að ræða. Það er ekki um marga stóra fjárfestingarkosti fyrir okkur að velja. Það er ekki mikið um að menn vilji koma hingað og festa hér fé og skapa þannig störf með eigin fjármagni.

Þetta verkefni er langsamlega stærsta verkefnið sem við sjáum fram á að geti farið af stað í fyrirsjáanlegri framtíð og haft einhver veruleg mælanleg áhrif á það atvinnuleysi sem hér er til staðar, sérstaklega á því svæði landsins þar sem atvinnuleysi er hæst í dag.

Reynt er að kasta rýrð á þann samning sem lagður er fyrir í frumvarpsformi. Þessi samningur er að öllu leyti sambærilegur hvað efnisatriði varðar við aðra samninga sem gerðir hafa verið. Ef eitthvað er er um heldur minni skattaívilnanir að ræða en verið hefur í öðrum sambærilegum samningum. Hér hefur verið reynt að efast um að hann stæðist samninginn um Evrópska efnahagssvæðið en út frá því sem ég nefndi, út frá öðrum samningum sem samþykktir hafa verið af ESA, er ekki nokkur einasta ástæða til þess að efast um að þessi samningur muni ekki verða samþykktur af Eftirlitsstofnun Evrópska efnahagssvæðisins.

Frekar en að vera tortrygginn gagnvart því sem hér er lagt fram og staglast um hvort þetta séu mörg eða fá störf ættum við að fagna því að við skulum yfirleitt vera með mál eins og þetta til umræðu í þinginu. Mál sem leiðir til fjárfestingar, skapar störf í uppbyggingu, skapar störf til framtíðar og skapar okkur útflutningstekjur í framtíðinni til þess að bæta stöðu okkar í viðskiptum við útlönd. Það er því full ástæða til þess að fagna þessu máli og ég treysti því að við klárum afgreiðslu þess áður en þingstörfum lýkur í dag og það leiði til þess að þær framkvæmdir sem um ræðir fari af stað bæði fljótt og vel og skili Suðurnesjunum og Íslandi öllu miklum og ómældum arði í framtíðinni.