136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[17:37]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég held að ég geti tekið undir hvert einasta orð sem sá sem talaði á undan mér, hv. þm. Árni Mathiesen, sagði. Ég fagna því mjög að þetta mál sé loksins komið á dagskrá og til umræðu á hinu háa Alþingi og allt tal, eins og í máli hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið að tefja þetta mál, er náttúrlega þvílík fjarstæða að það tekur engu tali. Það er minnihlutaríkisstjórnin sem fer með dagskrárvaldið hér í þinginu eins og ítrekað hefur komið fram núna á síðustu dögum. Hún hefði haft það í hendi sér hvenær sem er að setja þetta mál á dagskrá og ekki tefja fyrir því og senda óvissuskilaboð út á markaði sem eru mjög alvarleg skilaboð á þessum tíma.

Þessi framkvæmd er mjög mikilvæg í margvíslegu tilliti. Hún er mikilvæg út frá hagsmunum fyrirtækisins vegna þess að ákveðið er að byggja upp fyrirtæki á hagkvæman hátt með hagkvæma og hreina orku.

Þessi framkvæmd er ekki síður mikilvæg út frá hagsmunum Suðurnesja því að eins og komið hefur fram og verið tiltekið skapast fleiri þúsund störf, hvort sem það er við uppbyggingu eða til framtíðar. Ég tek undir með hv. þm. Grétari Mar Jónssyni, það eru störf sem skipta máli og eru mjög mikilvæg, einkum og sér í lagi á þessum tíma þegar fjöldi manns er atvinnulaus á Suðurnesjum.

En þetta er ekki síður mikilvægt út frá hagsmunum Íslands og Íslendinga allra og þeirri atvinnuuppbyggingu sem við þurfum að fara í á næstu missirum til þess að koma okkur út úr þessari blessuðu kreppu.

Verið er að senda skilaboð út um allan heim. Norðurál er nefnilega eitt fárra íslenskra fyrirtækja sem nú um stundir hefur tækifæri og möguleika til þess að fá fjármögnun úti í hinum stóra heimi. Og við þær aðstæður sem við glímum við nú eru fjárfestingarsamningar af þessu tagi nauðsynleg forsenda til þess að það gangi eftir. Við vitum að lánastofnanir erlendis fylgjast mjög grannt með framvindu mála hér og allt það hik sem verður á svona framkvæmd og sem orðið hefur, sendir ekki góð skilaboð til þeirra sem ætla sér að fjármagna svona verkefni.

Það er skylda okkar að tryggja að umhverfið verði stöðugt og gott og að við getum boðið fjárfestum, hvort sem þeir eru erlendir eða innlendir, upp á bestu mögulegu aðstæður eins og hægt er. Það er allt mjög mikilvægt, ekki síst í núverandi árferði þegar mikið liggur við.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið. Það kemur allt fram í áliti nefndarinnar og meirihlutaálitum hv. iðnaðarnefndar og efnahags- og skattanefndar þar sem lykilatriði verkefnisins eru tiltekin.

Eftir þá umræðu sem spannst hér áðan get ég ekki annað en nefnt það sem allt snýst í rauninni um. Þetta snýst allt saman um pólitík og mismunandi hugmyndafræði. Það kom svo glögglega í ljós þegar hv. þm. Álfheiður Ingadóttir ræddi áðan um hver hugmyndafræði þeirra og nálgun gagnvart atvinnulífinu er og hugsunin gagnvart skattlagningu á atvinnulífið.

Ég held að það hafi kristallast hér að í augum fylgismanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er atvinnulífið fyrst og fremst hressilegur skattstofn. Hann er ekkert annað. Það kom svo bersýnilega í ljós þegar þingmaðurinn talaði áðan að hún fann allt því til foráttu að þessi samningur skyldi gerður. Hér væri verið að grafa undan einhverjum möguleikum á því að hafa eins háa skattprósentu og við gætum hugsanlega einhvern tímann hugsað okkur að setja á þetta ágæta fyrirtæki. Hún notaði orðalagið „að læsa félagið inni“ í 15% skatti.

Ég var í gær stödd á fundi þar sem fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs talaði um að það væri verið að „bólusetja“ fyrirtækið fyrir skattahækkunum. Ef það er ekki einhver undarlegur hugsanagangur þá — ég á bara ekki orð yfir það. Þarna koma pólitísk hugmyndafræði, pólitískur ágreiningur og pólitísk sýn á hlutina glögglega fram.

Ég lít svo á að þarna séum við að tryggja sterkan, stöðugan og fastan atvinnuveitanda á svæði sem svo sannarlega þarf á því að halda. En hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sér bara fyrirtæki sem ekki er hægt að hækka skatta á. Og ég fagna því að hæstv. fjármálaráðherra, sem ég held að deili skoðunum hv. þingmanns, er genginn hér í salinn. (Gripið fram í.) Hvað sagði ráðherrann? (Gripið fram í.) Ég sé atvinnutækifæri og ég sé verðmætasköpun á svæði sem þarf svo sannarlega á því að halda. En hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sér fyrirtæki sem ekki er hægt að hækka skatta á. Ég sé tekjur inn í samfélag sem þarf svo sannarlega á því að halda en hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sér bara ofsjónum yfir því að ekki sé mögulega hægt að hækka skatta einhvern tímann í framtíðinni á þessu fyrirtæki.

Ég segi bara fyrir mig að ef það er spurningin um að fá minni part af stærri köku en stóran part af minni köku leyfi ég mér að fullyrða að þessi fjárfestingarsamningur tryggi til framtíðar að það verði einhver skattstofn á þessu svæði sem mun gefa tekjur til framtíðar.

Það kom líka berlega í ljós í máli hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur og í andsvörum hennar og viðræðum við hæstv. iðnaðarráðherra að þessi minnihlutaríkisstjórn, sem er ætlað vera hér í örfáa daga í viðbót, er nokkurs konar með eða á móti ríkisstjórn. Hún getur í krafti lýðræðisins að eigin áliti verið með stefnu bæði með og á móti í sama málinu. Hæstv. iðnaðarráðherra og aðrir þingmenn Samfylkingarinnar sem eru með þessu máli — sem eru nú reyndar ekki allir þingmenn Samfylkingarinnar, geri ég fastlega ráð fyrir, en þeir sem ég gruna um að vera mótfallnir þessu máli eru nú ekki hér í salnum — mæla þessu mikið bót og eru búnir að tala hér hátt og snjallt fyrir þessu máli og ég fagna því. Ég fagna því að þeir eru þeirrar skoðunar.

(Gripið fram í.) Hver fór með málið í gegn? Það er gott að hv. þm. Katrín Júlíusdóttir spyr að því, ég skal lesa upp nöfn þeirra sem eru á nefndarálitinu. Það eru nefnilega Katrín Júlíusdóttir, formaður iðnaðarnefndar, Einar Már Sigurðarson, líka samfylkingarmaður, Björgvin G. Sigurðsson, líka samfylkingarmaður, þau eru sem sagt þrjú. (Gripið fram í.) Síðan eru fjórir aðrir þingmenn og ég get ekki betur séð en að það séu þrír sjálfstæðismenn og einn framsóknarmaður þannig að þetta er sannkallað samvinnuverkefni (Gripið fram í.) Samfylkingar með okkur sjálfstæðismönnum og framsóknarmönnum.

En með-og-á-móti-ríkisstjórnin getur verið bæði með og á móti sama málinu, segir hv. þm. Álfheiður Ingadóttir. Hún hélt því fram að það væri vegna þess að þetta væri arfur frá gamalli tíð, þau gerðu þetta svona og gætu ekki stoppað málið af því að þetta væri minnihlutastjórn.

Ég leyfi mér að efast um það og ég leyfi mér að halda því fram að verði þessir tveir flokkar — og guð forði því — í samvinnu í ríkisstjórn eftir kosningar held ég að þetta sé nefnilega einmitt línan. Þessir flokkar munu ekki ná saman um eitt eða neitt og munu vera með sitt hvort minnihlutaálitið í hvaða máli sem við getum hugsað okkur að verði lögð fram þegar þeir eru ekki sammála. Þá munum við reyna að treysta á t.d. eins og í svona málum að Samfylkingin, sem er tilbúin að leggja í orkufrekan iðnað, mun treysta á að fá okkur sjálfstæðismenn og jafnvel framsóknarmenn með í málinu og skilja vinstri græna eftir með hjáróma minnihlutaálit eins og verið er að gera núna.

Þeir kjósendur Vinstri grænna sem halda að með því að kjósa geti þeir komið í veg fyrir og stoppað öll mál sem Vinstri grænir eru einir á móti og hafa sérstakar skoðanir á — ég leyfi mér að fullyrða að þeir muni bara sitja eftir og hafa minnihlutaskoðanir eins og alltaf. Samfylkingin muni þá treysta á vel hugsandi og þenkjandi fólk til að hjálpa sér með góð mál í gegnum þingið þegar þingmenn, eins og sá sem hér labbar fram hjá, geta ekki komið sér saman um þessi mál.

En virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir að forseti hefur komið þessu ágæta máli á dagskrá og ég hlakka mjög til að sjá þessa framkvæmd verða að veruleika sem er góð framkvæmd og mun styrkja og styðja við atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum. Við hv. þm. Katrín Júlíusdóttir getum notið þess að vera sammála í þessum málum, kæri þingmaður.