136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[17:52]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Helguvík verður ekki byggð nema einu sinni. Nú erum við að ná fram þessum áfanga hér sem verður vonandi til þess að álverið rísi og fari á fullt, þær framkvæmdir sem nú þegar eru hafnar af miklum krafti eins og stóð á forsíðu Víkurfrétta í vikunni undir fyrirsögninni: Það verður ekkert hik á Helguvík. Ég tel allar líkur á því að þetta verkefni gangi fram, Norðuráli gangi áfram vel að fjármagna verkefnið og það verði til þess að störfum fjölgi, tekjustofnar sveitarfélaga og íbúa á Suðurnesjum og suðvesturhorninu eflist og batni verulega.

Ég held að hvaða ríkisstjórn sem tekur við eftir kosningar verði með því að auðlindir Íslands, orkan í iðrum jarðar og fallvötnin, verði nýttar. En auðvitað hafa flokkar og fólk þvert á flokka mismunandi skoðanir á því hvernig eigi að nýta orkuna, hvað eigi að ganga langt hverju sinni og með hvaða hætti. Það er ekkert annað en gott, heilbrigt og jákvætt að flokkarnir spegli litróf í því.

Mestu skiptir að ná samstöðu um svona grundvallaratriði, svona stórbrotin verkefni í atvinnuuppbyggingu og verðmætasköpun í samfélaginu eins og álverið í Helguvík. Ég hef stutt það um langt skeið og er ánægður með að þessi samningur skuli nú ganga fyrir þingið. Að honum hafa margir unnið og eiga þakkir skildar fyrir það. Það er góð samstaða um málið í þinginu og því er engin ástæða til að gera lítið úr því að einhverjir stjórnmálamenn og flokkar hafi aðrar áherslur í þessu en við sem styðjum málið. Það er bara svoleiðis sem það er.

Auðvitað starfa gjörólíkir flokkar saman til lengri og skemmri tíma. Flokkarnir sem voru í síðustu ríkisstjórn eru gjörólíkir, hægri sinnaður íhaldsflokkur annars vegar og jafnaðarmannaflokkur hins vegar, en menn reyna að ná saman um mikilvæg verkefni. Það eiga menn að bera gæfu til að gera í þinginu líka, þvert á flokka og þvert á ríkisstjórnarsamstarf, að mikilvægustu málin gangi fram hverju sinni sé um það góð samstaða eins og þetta verkefni hér, að álver rísi í Helguvík.