136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[18:09]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Nú sér væntanlega fyrir endann á langþráðu baráttumáli sem skiptir miklu máli fyrir þjóðina í heild, fyrir atvinnustöðu og uppbyggingu atvinnu á Suðurnesjum, fyrir stöðu heimilanna á Suðurnesjunum, stöðu atvinnusköpunar á Suðurlandi og í landinu í heild.

Reikna má með að um 400 störf muni skapast í álverinu í Helguvík á frumframleiðslustigi en alls um 1.100 störf með störfum tengdum álverinu sjálfu. Á byggingartíma má reikna með á þriðja þúsund starfa á Suðurnesjum og víðar, til að mynda með línulögnum, kísilversmöguleikum og fleiri þáttum og verkefnum. Reiknað er með að álverið í Helguvík verði byggt í fjórum áföngum, 90.000 tonn í hverjum áfanga. Að loknum áfanga 2, þegar framleiðslan getur farið í 180.000 tonn, má reikna með frekari framleiðslu varnings úr áli og nú þegar hefur meiri hluti sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ lagt drög að því með aðstandendum álversins í Helguvík. Framleiðsluverksmiðjur úr áli gætu verið á Suðurlandsundirlendinu með tilkomu nýs Suðurstrandarvegar sem er á lokastigi fyrri hluta, 35 kílómetra vegalengd, en seinni hlutinn, 15 kílómetrar, verður boðinn út fyrir næsta haust ef framvindan gengur fram sem horfir.

Virðulegi forseti. Tafir á framgangi málsins í höndum ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingar er vissulega mikið áhyggjuefni. Málið hefur verið tafið af ríkisstjórninni til afgreiðslu Alþingis. Fáir töldu vera hindrun fyrir framgangi uppbyggingar álvers í Helguvík á byrjunarreit, ekki síst með tilliti til þess áfalls sem varð á Suðurnesjum við óvæntu og skyndilegu brotthvarfi bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli þar sem nær þúsund manns misstu vinnu sína. Sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum, sér í lagi í Reykjanesbæ, hafa brugðist við af miklum metnaði og ákveðni, djörfung og bjartsýni, og margt hefur áunnist eftir svo mikið áfall sem varð.

Viljayfirlýsing um byggingu álvers á Bakka við Húsavík gekk lengra en hvað Helguvík snertir en hæstv. iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson skrifaði þá undir viljayfirlýsingu um fjárfestingarsamning varðandi Bakka. Nú hefur viljayfirlýsing stjórnvalda varðandi álver í Helguvík verið dregin von úr viti. Slíkt sleifarlag hæstv. ríkisstjórnar á viðkvæmum og viðsjárverðum tímum er vítavert og jaðrar við skemmdarverk í möguleikum á mikilli atvinnusköpun á Íslandi. Allar tafir í framgangi slíkra stórverkefna sem bygging álvers er, geta valdið því að vænleg og örugg verkefni geta fallið milli skips og bryggju. Tafir og mismunandi yfirlýsingar stjórnvalda eru stórhættulegar í þessum efnum og illt er að núverandi stjórnarflokkar hafi gefið misvísandi yfirlýsingar út og suður.

Fjárfestingarfyrirtæki láta ekki teyma sig á asnaeyrunum þegar ýmsir aðrir valkostir standa til boða í öðrum löndum. Eftir er að sjá hvort fjáröflunarmöguleikar til smíði álvers í Helguvík hafi versnað því að drátturinn á framgangi þessa máls og sleifarlagið allt hefur haft mjög neikvæð áhrif í stöðunni. Nú sér vonandi og væntanlega fyrir endann á þessu máli, og þótt fyrr hefði verið, virðulegi forseti.