136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[18:15]
Horfa

Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Herra forseti. Hér er til umræðu eitt stærsta hagsmunamál Suðurnesjamanna til áratuga en eins og fram hefur komið í umræðunni hafa þeir orðið illa úti í atvinnumálum að undanförnu.

Ég sakna þess að hæstv. iðnaðarráðherra skuli ekki vera í salnum en ég vil hæla honum, og alveg sérstaklega fyrir að hafa lagt umhverfisstefnu Samfylkingarinnar frá árinu 2007 á hilluna í bili.

Fyrir tveimur árum tók varnarliðið sig upp og hélt vestur um haf með allt sitt hafurtask með tilheyrandi atvinnu- og tekjumissi fyrir þetta landsvæði, Suðurnesin. Í framhaldinu var komið á þróunarfélagi sem hefur með höndum uppbyggingu á svæðinu og leggur sitt af mörkum við að koma á fót verkefnum sem skapað geta ný tækifæri. Margt hefur verið gert þar ágætlega, t.d. með uppbyggingu á háskólasamfélagi, og ýmislegt var í burðarliðnum og er kannski enn þá. Mörg, kannski flest, þeirra verkefna sem unnið var að hafa verið sett í frost eða salt vegna efnahagskreppunnar sem vonandi hefur ekki farið fram hjá neinum.

Það má líka nefna að síaukinn ferðamannastraumur til landsins gerði uppbyggingu í tengslum við flugsækna starfsemi mögulega þó að staða flugstöðvarinnar hafi vissulega verið betri en hún er núna. Nú blasir þar við samdráttur eins og alls staðar annars staðar.

Eins og staðan er í dag, 17. apríl 2009, mælist atvinnuleysi yfir 17% á Suðurnesjum og hvergi annars staðar á landinu hefur það náð tveggja stafa tölu enn þá. Meðaltalið á landinu öllu var innan við 9% í mars en í dag ganga tæplega 1.900 manns um bæina og mæla göturnar. Þeim fer ört fjölgandi.

Því þarf engum að dyljast að verkefni við uppbyggingu álvers í Helguvík gæti orðið til þess að rétta verulega af þann mikla halla sem finna má á Suðurnesjum því að fátt annað virðist í farvatninu sem er í líkingu við stærðina sem þetta verkefni býður upp á. Sumir virðast halda að við höfum enn þá efni á að velta fyrir okkur hvort við eigum að nýta náttúruauðlindir okkar. Mér finnst, virðulegi forseti, svolítill 2007-bragur á því. Draumalandið var ekkert annað en sæmilegur draumur. Blákaldur veruleikinn blasir nú við þegar við erum vöknuð.

Þessir sömu og velta fyrir sér hvort við eigum að nýta náttúruauðlindir okkar eru líka að velta fyrir sér hvort ekki sé betra að gera eitthvað annað en að reisa álverksmiðju. Því miður eru þær hugmyndir ekki komnar lengra en það að menn velta fyrir sér alls konar hugmyndum, sem er ágætt út af fyrir sig og fínt að menn hugsi sem mest um nýsköpun og ný tækifæri, en eins og sakir standa er varla tími til að velta slíku fyrir sér öllu lengur hvað þetta varðar því að Suðurnesjamenn geta ekki beðið.

Það er áætlað að ársverk við byggingu álversins verði um 4.300 og að jafnaði verði um 950 manns þar beinlínis við störf en til viðbótar skapist afleidd störf. Það má gera ráð fyrir að á heildina litið verði þarna 8.000–9.000 ársverk.

Í umræðunni undanfarið hafa menn farið mikinn í andstöðu sinni við atvinnuuppbyggingu í Helguvík á forsendum umhverfissjónarmiða. Það hefur svo sem komið fram í umræðunni í dag hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur sem var í minni hluta í iðnaðarnefnd og skilaði þar séráliti. Menn hafa jafnvel talað um að vaktar séu falskar vonir um að álver í Helguvík muni leysa í eitt skipti fyrir öll atvinnuleysið í byggðum á Reykjanesi. Málflutningur af þessu tagi er fullkomlega óásættanlegur og ekki til neins annars en að slá ryki í augu fólks og drepa málinu á dreif. Álveri í Helguvík er sem betur fer ekki ætlað það hlutverk að skapa atvinnu í eitt skipti fyrir öll, enda þyrfti tvö til að útrýma því atvinnuleysi sem menn horfa upp á þar í dag.

Það verður því af metnaði haldið áfram að vinna í þróunarverkefnum og nýsköpun um ókomna tíð ef ég þekki mitt heimafólk. Menn ættu að horfa í augun á því fólki sem þarna gengur um án atvinnu án þess að nokkur önnur von sé í sjónmáli en þessi metnaðarfulla uppbygging í Helguvík. Ég endurtek að draumalandið var ekkert annað en sæmilegur draumur á meðan allt lék hér í lyndi.

Hvar og hvernig ætla vinstri græn að skapa 9.000 ársverk? Ekki er fjallagrösunum fyrir að fara á Reykjanesinu. Þráhyggja manna í tali um losun gróðurhúsalofttegunda í landi þar sem yfir 70% orkunnar eru sjálfbær er í fullkomnu ósamræmi við markmiðið ef menn horfa á þessi mál í hnattrænu samhengi. Það er gott að setja sér góð og göfug markmið, virðulegi forseti, en menn verða að hafa efni á þeim. Þeir verða að sýna fram á að þjóðin hafi efni á því að nýta ekki orkuna með þessum hætti. Þeir verða að benda á raunverulegar lausnir, virðulegi forseti, en ekki bara eitthvað annað.

Í fallegu ljóði segir, með leyfi forseta: Landslag væri lítils virði ef það héti ekki neitt. Landslag er einskis virði ef allir eru dauðir úr hungri og geta ekki notið þess. Fólk hlýtur að njóta vafans í þessum efnum og við hljótum að taka hag fjölskyldnanna, heimilanna, barnanna og fólksins sjálfs fram yfir væntingar og langanir um fullkomna náttúruvernd þar sem ekki má hrófla við einni einustu mosaþembu.

Hafi menn einhverja minnstu glóru um hvar þeir geti mögulega grafið upp 9.000 ársverk væri það vel þegið en þau þurfa að koma á u.þ.b. næstu 10 mínútum, virðulegi forseti, því að tíminn er að renna út. Fólk vill fá að vinna. Það vill sjá fyrir sér með sómasamlegum hætti. Það vill geta borgað af lánunum sínum og það vill geta gefið börnunum sínum að borða. Það vill halda reisn sinni og virðingu. Það er mikilvægast, virðulegur forseti, að mínu mati að fólk gangi framar löngunum sem við höfum ekki efni á á þessum tíma. Ef erlent fjármagn streymir inn í landið í ofanálag segi ég: Já, takk, fyrir hönd umbjóðenda minna á Suðurnesjum. Ég er reyndar viss um að það gera ýmsir fleiri og það hefur svo sem komið fram í máli sjálfstæðismanna dag.

Í tilefni af ummælum hv. þm. Árna Johnsens um sleifarlag ríkisstjórnarinnar í þessu máli skulum við alveg hafa það á hreinu að það voru sjálfstæðismenn sem hafa lagt þetta brýna mál að veði með málþófi og málfundaæfingum um allt og ekkert hér undanfarið með tilheyrandi röskun á þingstörfum til að koma í veg fyrir að eðlilegar og langþráðar lýðræðisumbætur sem njóta stuðnings meiri hluta þjóðarinnar nái fram að ganga. Það hefur verið gert undir forustu og stjórn þeirra sem hér hafa setið lengst og haft mest völdin í fanginu.

Ég ætla reyndar að neita mér um að leggja mat á það hvernig farið var með þau völd. Ofbeldið var stutt af flestum eða öllum öðrum þingmönnum sjálfstæðismanna sem með framgöngu sinni halda áfram að bregðast trúnaði við þjóð sína, áður í meiri hluta og við stjórn en nú í minni hluta.

Virðulegi forseti. Ég tel að sjálfstæðismenn megi skammast sín ofan í rassgat. Ég held að ég láti það verða mín síðustu orð í þinginu. (Gripið fram í.)