136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[18:49]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Hv. þm. Grétar Mar Jónsson stendur í miðjum brimskaflinum og rífur kjaft, (Gripið fram í.) stólpakjaft. (Gripið fram í.) Ég flutti hér ræðu, hv. þingmaður, þar sem ég studdi rökum m.a. sköpun gjaldeyris. Ég nefndi tölur, ég nefndi að 65% færu í aðföng, 35% færu í að borga niður erlend lán. Svo kemur hv. þingmaður hér upp og segir: Þetta er svo gjaldeyrisskapandi. (Gripið fram í.)

Ég bið hv. þingmann að svara mér með rökum og (Gripið fram í.) skiptast á málefnalegum andsvörum við mig en ekki standa gapandi uppi í brimskaflinum og koma ekki með nein rök á móti. Hv. þingmaður nefndi ekki óunna fiskinn sem fluttur er út og fjölmargar tillögur sem við höfum verið með í atvinnumálum, svo fjölmargar. Við höfum líka flutt fram dæmalaust góða sjávarútvegsstefnu (Gripið fram í.) sem mér finnst skorta hjá Frjálslynda flokknum, ég verð að segja alveg eins og er.

Að halda því svo fram, herra forseti, að það sé óháð álverum að lækka orkuverð til garðyrkjubænda, hvernig fæst það út? Eru álverin einhver eyja, sjálfstætt fríríki, og kemur ekkert málinu við hvað kostar að afla orku þangað? Það verður að skoða þessi mál í heildstæðu samhengi. Allur atvinnurekstur og heimili í landinu borga raforku en álverin borga raforkuverðið á verði sem er það lítið yfir kostnaðarverði að heimilin og atvinnureksturinn borga mun meira en þau þyrftu að gera. (Gripið fram í: Það er ekki rétt.) — Borga mun meira en þau þyrftu að gera.