136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[19:00]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (U):

Virðulegi forseti. Sá samningur sem hér er til umræðu og bíður lögfestingar á sér aðrar fyrirmyndir sem á undan hafa gengið. Það má vissulega taka undir efasemdir sem komið hafa fram í umræðunni hvort rétt sé að gera slíka sérsamninga um skattalega meðferð við einstök fyrirtæki sem öll eru meira og minna í sömu atvinnugrein. Sérsamningar eru frávik frá almennum reglum og það er heillavænlegra til lengri tíma að styðjast við almennar reglur sem öll fyrirtæki undirgangast en að semja frávik í einstökum tilvikum, sérstaklega þegar horfur eru slæmar og stjórnvöld eiga óhægt um vik og þurfa að ganga að samningum sem að öðrum kosti væru ekki taldir ásættanlegir.

Það má taka undir þau sjónarmið að menn eigi að forðast það eins og kostur er en það er erfitt að taka undir að aldrei eigi að gera slíka samninga því að einmitt við aðstæður eins og nú verðum við að gera fleira en gott þykir þegar atvinnuleysið er staðreynd. Þá hvílir sú skylda á stjórnvöldum að nýta öll þau tækifæri sem í boði eru til að draga úr því sem fyrst.

Það sem ég vildi benda á er að þessi framkvæmd er gríðarlega stór á efnahagslegan mælikvarða í litlu hagkerfi eins og á Íslandi. Samkvæmt upplýsingum sem fram komu með frumvarpinu er um að ræða 400 milljarða kr. framkvæmd sem er hátt í að vera jafnmikil fjárhæð og nemur útgjöldum ríkissjóðs í eitt ár eða um fjórðungi til 30% af landsframleiðslu eins árs. Slíkt er mjög stór framkvæmd í svo litlu hagkerfi. Þó að hún sé ekki alveg jafnstór og Kárahnjúkavirkjun og álverið í Reyðarfirði slagar þessi framkvæmd langleiðina upp í þær framkvæmdir og var bent á að fyrr hefði ekki verið hjá neinni evrópskri þjóð svo stór einstök framkvæmd sem þessi var á þeim tíma mæld á þá mælikvarða sem við notum, þ.e. landsframleiðslu og umsvif ríkissjóðs.

Það ber að fara mjög varlega í svona stórar framkvæmdir. Það er hætt við því að ef menn slaka á í efnahagsstjórninni komi það niður á heildarhagsmunum eins og segja má að hafi að sumu leyti gerst með Kárahnjúkavirkjun og álverið í Reyðarfirði. Ég studdi þá framkvæmd og styð hana enn, ég tek það fram svo það fari ekki á milli mála. Hinu ber þó ekki að neita að staðfestuna í efnahagsstjórninni hefur vantað á undanförnum árum. Það leiddi til þess að gengi íslensku krónunnar var hærra en ella hefði þurft að vera ef nægilegt aðhald hefði ríkt í ríkisfjármálum. Það bitnaði á atvinnufyrirtækjum í útflutningsgreinum og auðvitað fyrst og fremst á landsbyggðinni. Það gerði því atvinnustarfsemi erfiðara fyrir um nokkurra ára skeið en þurfti að vera vegna þess að stjórnmálamennirnir stóðu sig ekki nægilega vel.

Vissulega kom fleira til sem setti efnahagslífið úr skorðum, eins og gríðarlega mikið framboð á ódýru lánsfé, eins og verið hefur á undanförnum árum, sem leiddi til mikillar skuldsetningar, bæði atvinnufyrirtækja og heimila. Einkaneyslan fór á mikið flug og kaupmáttur jókst mjög mikið á stuttu tímabili og að baki þeirri aukningu var ekki að öllu leyti eitthvað raunverulegt eins og síðar kom í ljós.

Þessar aðstæður gætu hæglega komið upp aftur og ég mæli þessi varnaðarorð núna jafnvel þótt ekki sé útlit fyrir það á næstu 2–3 árum að menn þurfi að glíma við þær aðstæður. Hlutirnir breytast á ekki lengri tíma en reiknað er með í þessu, gert er ráð fyrir því að framkvæmdir standi til 2015, þ.e. næstu sex ár, og á því tímabili gætu orðið, sérstaklega á seinni þremur árunum, aðrar aðstæður en eru í dag. Þá reynir mjög á að stjórnvöld læri af reynslunni af síðasta stóra álveri og virkjunarframkvæmdum og gæti þess að haga efnahagsstjórninni og sérstaklega ríkisfjármálastjórninni með þeim hætti að það skaði ekki almenna hagsmuni, sérstaklega atvinnufyrirtækja í útflutningsgreinum.

Það versta við þau slæmu áhrif sem hafa orðið vegna þess að menn stóðu sig ekki nógu vel í efnahagsstjórninni er að landsbyggðin hefur fyrst og fremst goldið þess. Ýmis byggðarlög á landsbyggðinni, á Austurlandi, Norðurlandi og Vestfjörðum og að nokkru leyti á Suðurlandi, hafa goldið þess að menn höfðu ekki staðfestu til að vinna þau verk sem þeir áttu að gera. Það er hætt við því að þetta gerist aftur eða gæti gerst. Ég vil minna á það og biðja menn að hafa í huga að endurtaka ekki sömu mistökin og gerð hafa verið hvað þetta varðar.

Ég vil líka benda á annan þátt í þessu máli sem er sjálf auðlindanýtingin. Þetta mál bendir á það mál sem mjög mikið hefur verið rætt undir öðru formi hér í þingsölum undanfarnar vikur sem er ákvæði í stjórnarskrá. Það skiptir miklu máli að þær auðlindir sem verið er að nota hér séu nýttar innan lands í innlendu hagkerfi og nýttar þeim sem búa hér á landi til hagsbóta. Þess vegna þarf að setja í stjórnarskrá lýðveldisins ákvæði sem tryggja að þær auðlindir sem fyrst og fremst nýtast almenningi til að bæta lífskjör hans uppfylli þessi skilyrði. Það verður að gera með því að skilgreina margar hverjar þeirra sem þjóðareign og tryggja að þeir sem nýta auðlindirnar geri það hér innan lands og borgi fyrir það. Þetta þarf allt að fara saman, virðulegi forseti, til að tryggja að ávinningurinn af nýtingunni verði almenningi til heilla en ekki örfáum einstaklingum innan lands eða erlendis. Það vantaði inn í stjórnarskrárfrumvarpið í fyrsta lagi að skilgreina hvaða auðlindir eiga að vera þjóðareign, háðar þessum skilmálum, því að það var ekkert að finna um það í frumvarpinu. Þess vegna lagði ég fram breytingartillögu um það sem skilgreindi fiskstofnana en ekki hvað síst, og það lýtur að þessu máli, um orkuauðlindir landsins, bæði orkuna í rennandi vatni og orkuna í heitu vatni sem kemur úr iðrum jarðar sem þjóðarauðlind. Ég minni á þær breytingartillögur sem eiga sína forsögu og lagðar voru fram fyrst fyrir rúmum áratug af fleiri þingmönnum en mér. Það skiptir miklu máli að orkan sem er undir yfirborði jarðar verði skilgreind sem þjóðareign en falli ekki sem einkaeign til landeigenda. (MÁ: Þú hefur aldeilis hjálpað til með það.) Ég hef komið að því, virðulegi forseti, og mun halda áfram að reyna að gera slæmt mál skárra. (MÁ: … stjórnarskrána …) Það geri ég með breytingartillögum mínum sem ég vænti að hv. þm. Mörður Árnason hafi lesið gaumgæfilega og kannist við á þingskjölum eldri en frá flokksbræðrum okkar á þeim tíma. (MÁ: … Sjálfstæðisflokknum …) Það stendur ekki á hv. þm. Merði Árnasyni að greiða fyrir þingstörfum og gera mönnum kleift að flytja mál sitt truflunarlaust því að honum hættir til að hafa skoðun á öllu sem menn segja og vilja koma henni á framfæri jafnvel þótt hann hafi ekki orðið.

Það er nokkuð sem menn verða að búa við í þessum þingsal meðan þetta er svona.

Síðan vil ég benda á að það er ekki sjálfgefið að auðlindir þjóðarinnar séu nýttar hérlendis. Það er ekki sjálfgefið að fiskstofnarnir verði nýttir hér innan lands af fyrirtækjum sem starfa hérlendis og af vinnuafli sem býr í íslensku hagkerfi. Þess vegna þarf að hafa skilgreiningarnar í lagi og það þarf að vera í stjórnarskránni sjálfri en ekki í almennum lögum.

Það skiptir líka máli hvað varðar orkuna. Það er hægt að flytja orkuna milli landa og verður mjög auðvelt innan fárra ára með sæstreng og öðrum þeim nýjungum sem menn munu koma á á komandi tímum. Það verður eftirsótt af hálfu fyrirtækja erlendis, sérstaklega innan Evrópusambandsins, að komast yfir auðlindirnar og geta nýtt þær sér til hagsbóta. Í öðrum hagkerfum en því íslenska, flytja orkuna um streng til að skapa atvinnu í verksmiðjum á meginlandi Evrópu, (Gripið fram í.) sem vantar hana. Það er auðvitað sjónarmið út af fyrir sig sem er vel skiljanlegt af hálfu þeirra sem búa þar en við þurfum að horfa á hagsmuni þeirra sem búa hér og ætla að vera hér. Þess vegna þurfum við að tryggja þá hagsmuni með ákvæðum eins og þeim sem ég gat um að þyrftu að vera í stjórnarskrá. Ég skil ekki, virðulegi forseti, hvernig það gat farið fram hjá núverandi ríkisstjórn og þeim flokkum sem styðja hana til verka í stjórnarskrármálinu að flytja raunverulegar tillögur um þetta mikilsverða efni og skilja það eftir sem auða bók fyrir alþingismenn framtíðarinnar til að leika sér með í almennri löggjöf.

Allt of miklir hagsmunir eru settir í hendurnar á mönnum með allt of frjálsum hætti.

Vatnsaflið er heldur ekki alveg endurnýjanleg og ótímabundin auðlind. Orkan í rennandi fallvatni ræðst af m.a. snjósöfnun og við sjáum að a.m.k. nú á tímum og væntanlega næstu áratugi munu jöklarnir hopa. Það getur farið svo innan skamms tíma, ekki margra áratuga, að jöklar landsins hverfi meira og minna. Þá verður vatnsmagnið til að virkja miklu minna. Menn þurfa að gæta að því þegar þeir nýta þessa orku um þessar mundir, eða reikna út hvort eigi að nýta hana eða ekki, að hún verður ekki hér um alla framtíð. Það sem menn nýta ekki af virkjanlegri orku getur verið þorrið þegar þar að kemur og menn ætla að líta til þess. Þetta er eitt sem menn þurfa að hafa í huga og gá að þegar þeir meta gildi þess að nýta eða nýta ekki þá orku sem er í rennandi vatnsafli.

Síðan er gufuaflið eða jarðhitinn sem er í iðrum jarðar sem eflaust á eftir að verða okkur notadrýgst þegar fram líða stundir. Þar tek ég svolítið undir gagnrýni sem fram hefur komið um að menn treysti mjög mikið á orkulind sem er ekki mikið rannsökuð og er notuð í dag með mjög lítilli nýtingu og er eiginlega ekki forsvaranlegt að fara svona með jarðhitann eins og gert er í þeim efnum. Nýting á gufuafli er um 10% — ég sé að í þingskjali stendur 10–12%. Hér áður fyrr þegar ég var kunnugur þessum málum lærði ég að það væri um 9% nýting á jarðgufu og það er auðvitað engin hemja að fara svona með orkuna, að nota aðeins 9% eða 10% af henni en 90% fari út í andrúmsloftið.

Menn þurfa auðvitað að þróa þetta þannig að þeir nái betri tökum á og fari betur með þá orku sem kemur með þessum hætti.

Í öðru lagi hefur ekki verið rannsakað nægilega mikið hversu varanlegt þetta er, hversu mikið megi ganga á jarðhitann. Það liggur nokkuð ljóst fyrir að ef menn ganga fram eins og gagnvart Helguvík og ætla sér að treysta nær eingöngu á borholur og jarðhita, renna menn dálítið blint í sjóinn varðandi hversu stöðugur sá hiti er. Því meira sem menn dæla upp úr holunum því dýpra sekkur jafnvægispunkturinn í þeim efnum og menn ganga á það sem fyrir er. Það þarf að hvíla svæðið í einhvern tíma til að láta það jafna sig og er ekki vitað hversu hratt gengur á svæðið, hversu mikið megi taka og hvað tekur langan tíma að láta jafna sig. Það er varasamt að byggja stóra orkusölu á orkulind sem er ekki meira rannsökuð en raun ber vitni.

Þetta vildi ég láta koma fram, virðulegi forseti, en undirstrika að ég er alls ekki andvígur því að nýta þessa orku. Það á að gera það en menn hafa farið dálítið fram úr sér í þeim efnum á síðustu árum.

Ég vil líka vara við því að opinber fyrirtæki gangi mjög fram eins og gerst hefur á síðustu árum með því að ráðast í stórfelldar virkjunarframkvæmdir, nánast eingöngu með lánsfé. Hitaveita Reykjavíkur var nánast skuldlaust fyrirtæki ekki fyrir svo löngu síðan. Nú er Orkuveita Reykjavíkur mjög skuldsett fyrirtæki. Landsvirkjun er líka mjög skuldsett. Ég held reyndar að bæði þessi fyrirtæki eigi fyrir skuldunum, þau hafa orkusölu sem á að tryggja þeim, ef ekkert óvænt kemur upp á, tekjur til að standa undir skuldum. Ég held að það séu réttir útreikningar. En mikil skuldsetning þýðir hins vegar að fyrirtæki er mjög viðkvæmt fyrir óvæntum áföllum og það er það sem getur komið upp á og gerist af og til eins og gerðist síðasta haust — óvænt áföll sem breyta öllum forsendum og þá sitja menn uppi með skuldirnar en skerta getu til að standa undir þeim. Þess vegna er mjög varasamt að safna miklum skuldum í örfá fyrirtæki. Menn eiga að forðast það eins og heitan eldinn að safna meiri skuldum í þau fyrirtæki sem þegar er búið að skuldsetja mikið.

Ég held að menn þurfi að fara að huga að því að greina í sundur næstu virkjanaframkvæmdir frá þeim sem eru fyrir Landsvirkjun til að reyna að dreifa áhættunni og minnka líkurnar á því að Landsvirkjun verði fyrir skakkaföllum ef eitthvað ber út af í áhættusömum fyrirtækjum. Mér finnst vera töluverð áhætta í fyrirtæki sem er byggt mjög mikið á jarðgufuafli.

Að þessum varnaðarorðum sögðum ítreka ég þá afstöðu mína að það eigi að nýta þessar auðlindir og það eigi að gera það með þeim arðsömu tækifærum sem fyrir hendi eru og ég hef enga ástæðu til að vefengja að áformin um byggingu álvers í Helguvík séu arðbær og styð þau því.

Ég vil þó segja að lokum, virðulegi forseti, að þegar ráðist er í slíka framkvæmd taka menn ákvarðanir sem snerta þjóðfélagið allt, taka ákvarðanir sem breyta afstöðu manna eða stöðu þeirra í öðrum byggðarlögum og að sumu leyti til hins verra, sérstaklega þegar menn gera það með sérstökum samningum um ríkisstuðning umfram það sem fer inn á eitt tiltekið svæði og önnur njóta ekki. Það er eðli ríkissamninga, hvort sem það á við um Helguvíkursamninginn, Austfjarðasamninginn eða Hvalfjarðarsamninga, að reyna að koma á fót atvinnufyrirtæki á tilteknu landsvæði til að efla atvinnulíf og byggð þar með beinum fjárstuðningi úr ríkissjóði. Þá skekkja menn stöðuna gagnvart öðrum byggðarlögum sem ekki njóta ríkisstuðningsins. Norðurland og Vestfirðir hafa farið mjög halloka í þessum ríkisstyrkjasamningum. Þó að þeir séu góðir fyrir þau svæði sem í hlut eiga hafa hin svæðin að sumu leyti goldið þess. Það verður að gera þá kröfu til stjórnvalda þegar þau ákveða ríkisstuðning fyrir ákveðin svæði, sem er réttlætanlegt við tilteknar aðstæður, að þau geri aðstæður sambærilegar á öðrum landsvæðum til að vinna á móti áhrifunum af ríkisstuðningnum. Það getur varla verið afstaða stjórnvalda, og ég trúi því ekki á hæstv. iðnaðarráðherra, að markmiðið með byggingu álvers í Helguvík sé að fá fólk til að flytja sig vestan af fjörðum til Suðurnesja, að fækka fólki á Vestfjörðum og fjölga á Suðurnesjum. Ég hef enga trú á að það sé markmiðið en það mun gerast ef ekki verður gripið til einhverra mótvægisaðgerða eða gagnaðgerða til að vinna á móti þessum ríkisstuðningi.

Á þetta vildi ég leggja áherslu, virðulegi forseti, og hvet hæstv. iðnaðarráðherra til að hafa það í huga að hann ber skyldur ekki bara við þau landsvæði þar sem álver eru reist heldur líka við þau landsvæði þar sem álver eru ekki reist. Ekki síður hefur hann skyldur við þau landsvæði því að þau eiga við ákveðna erfiðleika að glíma vegna framkvæmdanna, erfiðleika sem koma fram í hærra gengi og hugsanlega hærri verðbólgu. Þetta tvennt, áhrifin af framkvæmdunum og ríkisstuðningnum, leggst því gegn þeim landsvæðum sem eru utan áhrifasvæða þeirra landsvæða sem ríkisstuðningurinn beinist að.

Að svo sögðu, virðulegi forseti, ítreka ég niðurstöður mínar til þessa tiltekna þingmáls og ég mun styðja það.